Bjarni hafði sitt fram og fallið frá vorkosningum: Kosið eftir rúmt ár

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, virðist hafa haft betur í umræðum oddvita stjórnarflokkanna um tímasetningu næstu alþingiskosninga. Forsætisráðherra tilkynnti í dag að stefnt sé að kjördegi síðasta laugardag í september á næsta ári.

„Núverandi kjörtímabili Alþingis lýkur þann 28. október árið 2021. Eins og áður hefur komið fram hefur forsætisráðherra sagt að upplýst verði um kjördag fyrir komandi þingvetur. Forsætisráðherra hefur nú ákveðið að stefnt skuli að því að næsti kjördagur verði síðasta laugardag í september 2021 – eða 25. september 2021,“ segir í stuttri tilkynningu sem birt var á vef forsætisráðuneytisins eftir hádegi.

Kosið var á óvenjulegum tíma fyrir þremur árum eftir að þing var rofið og boðað til kosninga þegar Björt framtíð hafði slitið ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn á næturfundi. Ástæðan voru uppljóstranir um að barnaníðingar hefðu fengið uppreist æru og að faðir formanns Sjálfstæðisflokksins hefði skrifað meðmæli fyrir einn þeirra.

Kjörtímabil er alla jafna fjögur ár og samkvæmt því þyrfti ekki að halda alþingiskosningar næst fyrr en í október á næsta ári. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafði lýst vilja til að halda þær fyrr, jafnvel vorið 2021 ef um slíkt næðist samstaða, en Bjarni Benediktsson lýsti sig andsnúinn slíku og sagðist vilja klára fullt kjörtímabil. Stjórnarflokkarnir hefðu haft mikið fyrir því að komast í ríkisstjórn og engin ástæða væri til að stytta starfstímabil hennar.