„Maður hefði haldið að formaður Sjálfstæðisflokksins, sá ágæti maður, myndi boða eitthvað nýtt í orkupakkamálinu fyrst blásið var til opins fundar í Valhöll,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins á facebook síðu sinni í dag, í kjölfar opins fundar þingflokks Sjálfsstæðisflokksins í Valhöll í hádeginu. Þar hafði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýnt Sigmund Davíð og Miðflokkinn.
„Í staðinn flutti hann gömlu línuna um að orkupakkinn hafi þegar verið orðinn til þegar ég var í ríkisstjórn. Jú pakkinn hafði lengi verið til en samt innleiddum við hann ekki. Auk þess heyrði málið ekki undir mig, ekki frekar en fjármálaráðherra á þeim tíma (hver sem það nú var). Málið heyrði hins vegar undir ráðherra Sjálfstæðisflokksins en ekki ætla ég að gagnrýna þann góða ráðherra enda innleiddi hann ekki orkupakkann.“
„Á fundinum í Valhöll fylgdu svo endurteknar fullyrðingar um að málið feli ekki í sér framsal valds yfir orkumálum eða að það sé að minnsta kosti „afmarkað”. Á meðan gerist það í raunheimum að ESB fer í mál við Belgíu fyrir að framfylgja ekki 3. orkupakkanum nógu vel. Hvað gerðu Belgar af sér? Þeir létu sér detta í hug að belgískir kjósendur og fulltrúar þeirra ættu áfram að hafa eitthvað um orkumál að segja þrátt fyrir innleiðinguna,“ hélt Sigmundur Davíð áfram.
„Það er því þegar komið fram raundæmi um það sem Arnar Þór Jónsson dómari og fleiri hafa varað við. Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn taki upp sjálfstæðisstefnuna í þessu máli og öðrum fullveldismálum.“
Bjarni sakar Sigmund Davíð um rangfærslur
Bjarni svaraði á sinni facebook síðu og sagði: „Fínn fundur í Valhöll í dag. Sigmundur Davíð hefði verið velkominn þangað. Við áttum ágætt samstarf um mikilvæg framfaramál í ríkisstjórn á sínum tíma. Það hefði mögulega komið í veg fyrir að hann færi með rangt mál um efni fundarins, eins og hann gerir hér á fb [facebook] í dag, einkum um það sem ég sagði um stöðu orkupakkamálsins þegar hann var forsætisráðherra og Gunnar Bragi utanríksráðherra.“
Bjarni sagði að á þeim tíma hafi stefna stjórnarinnar birst í minnisblöðum sem lögð voru fyrir þingið, og lét þau fylgja facebook færslunni í viðhengi. „Afstaða utanríkisráðuneytisins í tíð Gunnars Braga og Sigmundar Davíðs var sú að málið stæðist stjórnarskrá, að íslenskra hagsmuna hafi verið gætt í hvívetna og að ljúka bæri málinu með samþykkt í sameiginlegu EES nefndinni. Með öðrum orðum að stefnt skyldi að innleiðingu.“
„Þingið skoðaði málið í tveimur þingnefndum og samþykkti að málið héldi áfram. Stjórnarmeirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks var sem sagt sammála um þetta. Í framhaldinu var málið afgreitt í sameiginlegu EES nefndinni. Í því fólust fyrirheit um að innleiða málið í lög, með eðlilegum fyrirvara um frekari aðkomu Alþingis,“ segir Bjarni jafnframt.
„Það er því rík innistæða fyrir því að segja þá tvo hafa algerlega skipt um skoðun í málinu og blekking eða í besta falli útúrsnúningur þegar Sigmundur Davíð segir í dag: „en við innleiddum hann ekki.”“