Blóðfaðir minn barnaði 3 konur sama árið, en ekki eiginkonu sína

Ásdís Halla Bragadóttir.

Ein umtalaðasta bókin í jólabókaflóðinu þetta árið er án efa Hornauga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur. Þar heldur hún áfram að rekja fjölskyldusögu sína af hispursleysi og heldur engu undan.

Á einum stað fjallar hún um blóðföður sinn, sem hún fær vitneskju um á fullorðinsárum. 

Algjör tilviljun réð því að um það bil 43 árum eftir hið mikla frjósemisár heyrði Halldór það í Kolaportinu að barnið sem Sigríður ól hefði verið stúlka sem heitir Ásdís Halla Bragadóttir, sú sama og hefði verið bæjarstjóri í Garðabæ, en var á þeim tíma forstjóri BYKO. Þegar heim var komið úr Kolaportinu treysti hann syni sínum fyrir því að ekki væri útilokað að hann væri faðir bæjarstjórans fyrrverandi og bað um aðstoð sonarins við að finna myndir til að sjá hvort einhver líkindi væru með okkur. Gagnlegustu myndirnar fundu þeir á fésbókinni og þar á meðal myndir af umræddri Ásdísi Höllu sem barni og unglingi. Þeir feðgar voru sammála um að af þeim myndum mætti sjá svip sem þeir könnuðust við úr fjölskyldunni.

Síðar í sama kafla skrifar Ásdís Halla:

„Forsagan er sú að um miðbik sjöunda áratugarins var Halldór kvæntur konu sem hann hafði miklar mætur á, en töluvert uppnám varð í hjónabandinu þegar í ljós kom að þau gátu ekki eignast börn. Hjörtur, faðir Halldórs, hvatti hann til að slíta hjónabandinu við óbyrjuna því það gæti aldrei orðið farsælt. En þau vildu reyna að finna sínar leiðir og einn af möguleikunum var að ættleiða barn.

Við þessar aðstæður virðist sem óttinn við að deyja út hafi náð svo djúpstæðum tökum á Halldóri að á einu og sama árin, 1967-1968, barnaði hann þrjár konur og engin þeirra var eiginkona hans. Ein fór í fóstureyðingu en tvö komu í heiminn – ég í júlí 1968 og sonurinn í desember sama ár.“ 

Hornauga er gefin út af bókafélaginu Veröld.