Bóndinn á Vatnsenda látinn

Þorsteinn Hjaltested.

Þor­steinn Hjaltested, ábúandi á Vatnsenda við Elliðavatn og umsvifamikill fjárfestir, lést á heim­ili sínu aðfaranótt 12. des­em­ber síðastliðinn. Hann varð 58 gam­all.

Þor­steinn fædd­ist í Reykja­vík 22. júlí 1960, son­ur Magnús­ar Hjaltested, bónda á Vatns­enda og konu hans Kristrún­ar Ólaf­ar Jóns­dótt­ur. Kristrún lif­ir son sinn.

Þor­steinn ólst upp á Vatns­enda og hefur jafnan kenndur við þessa miklu jörð. Um árabil hefur hann verið áberandi í fréttum vegna deilna um eignarhald jarðarinnar og ótalmargra dómsmála um hagsmuni sem henni tengjast, enda um milljarðatugi þar að tefla. Stór hluti efri byggða Kópavogs er í landi sem áður tilheyrði fjölskyldu Magnúsar.

Eignarnám Kópavogsbæjar í hluta jarðarinnar 2007 sat lengi í Þorsteini og síðast í sumar höfðaði hann mál gegn bænum og krafðist milljarða króna í skaðabætur. Hins vegar stóð hann einnig í málaferlum við ýmis ættmenni sín um erfðaréttindin að jörðinni.

Þorsteinn heitinn var mat­reiðslu­meist­ari. Hann vann m.a. á Hót­el Loft­leiðum, var m.a. yfirmatreiðslumaður í verslunum Víðis og í Golfskálanum í Grafarholti. Einnig rak hann Sundakaffi um tíma, átti hlut í Veisluturninum í Kópavogi og sem bóndi á Vatnsenda hélt hann hross og kindur og stóð í margvíslegum fasteigna- og lóðaviðskiptum.

Kona Þor­steins var Kaire Hjaltested. Þau skildu. Syn­ir þeirra eru Magnús Pét­ur og Björn Arn­ar.