„Jólakötturinn er þekktur fyrir að éta börn sem fá ekki flíkur fyrir jólin. Fátækt er oft ástæða þess að foreldrar hafa ekki efni á því að útvega börnum sínum ný föt. Borgin er sennilega stærsti láglaunavinnustaður landsins og greiðir mörgum laun sem duga ekki fyrir helstu nauðsynjum út mánuðinn. Það er því á ábyrgð borgarinnar að mörg börn alast upp við fátækt. Borgin ákveður samt sem áður að hampa jólakettinum opinberlega án þess að minnast á fátækt,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, en hún gagnrýnir þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að hafa sett upp forláta upplýstan jólakött á Lækjartorgi nú fyrir jólin.
Jólakötturinn er engin smásmíði, um 5 metrar á hæð og 6 metrar á breidd. Grýla og Leppalúði mættu á Lækjartorg um helgina ásamt jólakettinum. Barnakórinn Graduale Futuri söng nokkur jólalög og því næst hélt Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, stutta ræðu og svo taldi hún niður ásamt Grýlu og Leppalúða og kveikti svo á jólakettinum en hann er lýstur upp með 6500 led ljósum.
Hönnun jólakattarins er samstarf Reykjavíkurborgar og mk-illumination í Austurríki og fyrirtækisins Garðlist. Mikill fjöldi fólks mætti á Lækjartorg, en upplýstur kötturinn mun standa vaktina á Lækjartorgi fram yfir jól. Mun hann hafa kostað alls um fjórar milljónir króna.
Sanna segir jólaköttinn tákn um fátækt:
„Fátækt er ógnvekjandi óvættur sem margir þurfa að eiga við alla mánuði ársins, ekki bara í desember. Ef að Reykjavíkurborg er með þessu á einhvern hátt að leitast við að draga fátækt fram í dagsljósið þá ætti hún frekar að bjóða t.d. fólki frá Pepp (samtökum fólks í fátækt) að koma og segja frá sinni reynslu, í staðinn fyrir að haldi í heiðri viðhorfum um að það beri að refsa fátæku fólki fyrir að vera á þeim stað sem það er.
Ég er allavegana ekki að ná því hvað er svona flissandi skemmtilegt við það að kveikja á jólakettinum, væri frekar til í að kveikja í nýfrjálshyggjunni,“ segir hún.