Borgin hyggst stórfjölga leikskólaplássum: Vantar víða starfsfólk

Af vef Reykjavíkurborgar.

Stýrihópurinn Brúum bilið, sem skipaður var vorið 2016, hefur skilað inn tillögum að því hvernig best er að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á næstu fimm árum. Það verður fyrst og fremst gert með byggingu nýrra leikskóla, viðbyggingum og nýjum leikskóladeildum við starfandi leikskóla borgarinnar en einnig með samningum um fjölgun barna hjá sjálfstætt reknum leikskólum. Eyþór Arnalds oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins segir það hins vegar til lítils að fjölga leikskólarýmum ef leikskólarnir standa ómannaðir.

Áætlað er að verja 5,2 milljörðum króna til þessarar uppbyggingar á næstu 5 árum.

„Þrátt fyrir fögur fyrirheit allt síðasta kjörtímabili voru biðlistar langir og börn gjarnan send heim vegna manneklu síðasta vetur. Auk þess er verulegur skortur á fagmenntuðu fólki í leikskólum borgarinnar. Það er því sá raunveruleiki sem þarf að hafa í huga við framkvæmdina. Eins mætti víkka sjóndeildarhringinn og leggja aukna áherslu á ráðningu starfsfólks með fjölbreyttan bakgrunn sem gæti reynst þroskandi fyrir börnin, t.d. með bakgrunn í tónlist, íþróttum eða listum,“ segir Eyþór.

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna.

Eyþór bendir jafnframt á að fimm ára fjárhagsáætlun frá síðasta ári hafi verið verulega vanáætluð.

Allt að 750 ný leikskólapláss

Leikskólarýmum verður fjölgað um allt að 750 á næstu fimm árum til að hægt verði að bjóða öllum börnum tólf mánaða og eldri pláss á leikskóla fyrir lok árs 2023. Á næstu fimm árum verða byggðir fimm nýir leikskólar og reistar verða a.m.k. fimm viðbyggingar við leikskóla þar sem er mikil eftirspurn. Einnig verða opnaðar nýjar leikskóladeildir í færanlegu húsnæði við fjóra leikskóla strax á næsta ári.

Settar verða á fót sérútbúnar ungbarnadeildir við alla borgarrekna leikskóla sem hafa fjórar deildir eða fleiri. Það á við um 46 leikskóla og stefnt er að því að þeir verði allir búnir sérstakri ungbarnadeild fyrir árslok 2023. Nú þegar hafa 14 ungbarnadeildir tekið til starfa við borgarrekna leikskóla og fjölgar þeim um sjö á ári á komandi árum.

Mikilvæg forsenda verkefnisins er að áform ríkisins um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði verði að veruleika en Reykjavíkurborg vill og hyggst taka fulla ábyrgð á því að bjóða börnum leikskólaþjónustu að því loknu, að því er segir í frétt frá borginni.

Stýrihópurinn telur raunhæft að ná því marki á næstu fimm árum þar sem í öruggum skrefum verði hægt að bjóða yngri börnum leikskólarými. Helsti óvissuþátturinn felst í skorti á leikskólakennurum en þeim ætti að fjölga samhliða markvissum aðgerðum borgarinnar til að bæta starfsumhverfi þeirra.

Skúli Helgason borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Stýrihópinn skipuðu Skúli Helgason formaður, Líf Magneudóttir, Örn Þórðarson, Guðrún Alda Harðardóttir og James Maddison.

Ekki nóg að gera ráð fyrir steinsteypu

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn telja mikilvægt að staðið verði við að fjölga leikskólarýmum enda stefnt að því að tryggja 12 mánaða börnum rými.

„Ekki er hægt að láta hjá líða að nefna að foreldrar sumra barna á leikskólaaldri eru ekki að fá leikskólarými fyrir börn sín í þeim hverfum þar sem þau eru búsett. Það eitt og sér er áhyggjuefni hjá foreldrum barnanna enda getur slík staða haft áhrif á félagsleg tengsl barnanna í hverfinu. Það er ekki nóg að gera ráð fyrir steinsteypu til að brúa bilið. Það þarf að vinna markvisst að því að tryggja faglega mönnun sem of lengi hefur verið í ólestri,“ segir hann.