Hér kemur fróðleikur sem allir foreldrar ættu að kynna sér og ræða við börnin sín og unglinga:

Börn ættu að forðast skjátíma (að vera í snjallsíma eða skjábretti) að minnsta kosti klukkustund áður en þau fara í háttinn. Foreldrar verða líka að vera börnum sínum fyrirmynd í þessum efnum og hanga ekki endalaust í símanum þegar fjölskyldan er að reyna að njóta samvista.

Samtök barnalækna í Bretlandi hafa gefið út nýjar viðmiðunarreglur fyrir foreldra um notkun barna á snjalltækjum. Sífellt fleiri börn hafa hreinlega ánetjast þessum tækjum sem geta verið svo dásamlega spennandi, en vanabindandi í senn.

Samkvæmt viðmiðunarreglunum er skynsamlegt að foreldrar takmarki skjátíma barna og unglinga með einhverjum hætti, þar sem of mikil notkun þessara tækja getur haft í för með óæskilegar afleiðingar, svo sem erfiðleika með svefn og hegðunarvandamál.

Of mikill skjátími getur leitt af sér andleg veikindi, haft áhrif á matarlyst barna og latt þau til heilbrigðra lífshátta á borð við hreyfingu og hefðbundna leiki.

Þó er sem betur fer ekkert sem bendir til þess að það sé börnum beinlínis hættulegt að vera í snjalltækjunum sínum. Aðeins að allt er best í hófi í þessum efnum eins og öðrum.

Notkun snjallsíma er sjálfsagður hluti af lífi barna okkar og unglinga.

Þess vegna var ákveðið að mælast ekki fyrir um aldurstakmörk þegar kemur að notkun snjalltækja á borð við síma og lófatölvur, aðeins að foreldrar fylgist vel með því sem börnin eru að gera, hvað þau eru að horfa á og taki sér hvíld frá notkuninni inn á milli.

Sérstaklega er tekið fram að ekki eigi að leyfa börnum að komast upp með að sleppa málsverði með fjölskyldunni af því þau vilja hanga inn í herbergi í snjalltækjunum sínum og ekki heldur þegar kemur að samverustundum með fjölskyldunni. Börn taki hins vegar lítið mark á slíkum reglum, ef foreldrarnir hanga sjálfir endalaust í símanum og séu vart viðræðuhæfir á meðan.

Takmörkun á notkun snjalltækja fyrir svefn þykir einkar mikilvæg, þar sem birtan frá skjánum er þess eðlis, að hún dregur úr náttúrulegri framleiðslu melatóníns í heilanum og börnin eiga því erfitt með að sofna.

Þótti þér þessi grein fróðleg? Deildu henni þá til þeirra sem þú telur að gætu haft gagn að henni.