Breskur leikari segir að ekki megi grínast með neitt lengur

„Það má ekkert segja lengur, sem er fáránlegt – sérstaklega má ekki grínast með neitt.“ Þetta er haft eftir Christopher Biggins, sjötugum breskum leikara, sjónvarpsstjörnu og talsmanni tjáningarfrelsisins í viðtali við breska dagblaðið The Telegraph.

Blaðið ræddi við hann um samræðulistina, sem á erfitt uppdráttar þessa dagana sökum móðgunargirni fólks – jafnvel samræður þar sem enginn ásetningur um að móðga liggur að baki.

Vill ekki sjá karlmenn í brúðarkjólum

Christopher Biggins, leikari og sjónvarpsmaður.

„Það sem truflar mig, er að það eru talsmenn allskonar minnihlutahópa að garga sig hása um það hvað við höfum öll rangt fyrir okkur – sem er út í hött. Pólitískur rétttrúnaður gegnsýrir allt, og stjórnmálin líka,“ segir Biggins, sem sjálfur er samkynheigður. „Ég mjög trúaður – sem er eitt sem ég er gagnrýndur fyrir – og jafnvel þó ég sé afar ánægður fyrir hönd samkynhneigðra sem ákveða að ganga í hjónaband, þá vil ég ekki að þetta fari alveg úr böndunum. Mig langar ekki að sjá karlmenn ganga upp að altarinu í hvítum brúðarkjólum – ég er bara svona gamaldags.“

„Staðfest sambúð er frábær, maður fær allt sem maður þarf í sambandi,“ bætir Biggins við, en hann og maðurinn hans gengu í staðfesta sambúð fyrir 25 árum, en til skamms tíma var hann kvæntur áður. Biggins, sem kveðst þekktur fyrir að „tala út um skeggið“, olli uppnámi þegar hann sagði í blaðaviðtali að „tvíkynhneigðir ættu að horfast í augu við það hverjir þeir raunverulega eru og hætta að eyðileggja líf kvenna.“ Hann hefur samúð með konum sem uppgötva eftir jafnvel áratugalöng hjónabönd að eiginmaður þeirra hefur jafnvel frá upphafi haldið framhjá með karlmönnum.

Rekinn fyrir að ræða tvíkynhneigð opinskátt

„Mér finnst ekki skipta máli hvernig þú ert – svo lengi sem þú ert heiðarlegur við makann þinn um það. En ég lenti í skelfilegum vandræðum fyrir að ræða tvíkynhneigð í þættinum Celebrity Big Brother árið 2016; það varð helsta ástæðan fyrir því að ég var látinn fara,“ sem trúir því að alnæmisfaraldrinum hafi verið dreift af tvíkynhneigðum bandarískum mönnum í viðskiptaerindum í Afríku.

Biggins ætlar ekkert að slá af í nýjum spjallþætti sem hann stjórnar, „Late-Lunch“, í tengslum við Edinborgar-jaðarhátíðina (e. Edinburgh Fringe Festival), en hann hefur mikla reynslu í „bransanum“ og hlakkar til að fá að láta allt fjúka. Fyrir 40 árum tók hann þar síðast þátt, í leikriti þar sem hann kom fram í dragi og hneykslaði áhorfendur með grófum senum. „Það væri ekki hægt að flytja svona leikrit nú til dags, því að pólitíski rétttrúnaðurinn er svo yfirgengilegur.“