Bretland yfirgefur ESB í kvöld að nafninu til

Margir Bretar munu lyfta sér upp í kvöld, er útganga Bretlands úr ESB tekur gildi. Mynd/Haraldur Ólafsson
Haraldur Ólafsson.

„Stemmingin er nú bara afslöppuð, ekkert mikill æsingur. Það verður þó gaman hér í bænum í kvöld, mörg samkvæmi víða. Menn vilja ekki strá salti í sárin hjá þeim sem vildu vera, en ætla nú samt að halda sína hátíð.“

Þetta sagði Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur í samtali við Viljann, en hann er staddur í London og var á leiðinni í BREXIT-gleðskap þar – þrátt fyrir rigningarveður, að sögn.

Útgangan og næstu skref

Þegar klukkan slær 23 að staðartíma í kvöld, mun Bretland formlega yfirgefa Evrópusambandið (ESB), eftir þrjú og hálft ár sem að mestu leyti einkennst af rökræðum, samningaviðræðum og deilum. Um þetta er fjallað í grein í Times í dag og Viljinn snaraði yfir á íslensku.

Stundin mun boða upphaf nýs, óviss tíma í þjóðlífi Bretlands. Löggjafarþing landsins mun afsala sér sætum sínum á Evrópuþinginu, yfirvöldum verður frjálst að hefja samningaviðræður um viðskipti við önnur lönd og vasar fólks byrja að fyllast af þremur milljónum mynta sem slegnar voru af tilefninu.

Þegar sólin rís í fyrramálið, mun ekki mikið hafa breyst vegna skilnaðarsamnings Boris Johnson forsætisráðherra, og leiðtoga ESB. Bretland er nú að ganga inn í „aðlögunartímabil“ þar til í lok desember. Það þýðir flest lög ESB munu áfram gilda í Bretlandi, þar með talin réttindi borgara ESB að búa og starfa í landinu.

Bretland mun því hvorki endurheimta fullveldið né eftirlit með landamærunum strax, eins og kjósendum var lofað af BREXIT-sinnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2016, en verður þó einu skrefi nær því. Næstu mánuðir munu líta um það bil svona út.

Hvaða breytingar verða á ferðalögum?

Ferðalög milli Bretlands og ESB á aðlögunartímabilinu munu halda áfram eins og venjulega. Það þýðir breskir ferðamenn og ESB borgarar þurfa ekki vegabréfsáritanir. Það þýðir líka að breskir ríkisborgarar geta haldið áfram að starfa í ESB – þó að þeim hafi löngum verið bent á að sækja um búseturétt til að tryggja að þau geti haldið áfram að gera það eftir að aðlögunartímabilinu lýkur. (Sama gildir um ESB ríkisborgara sem búa í Bretlandi).

Sjúkratryggingakortið sem tryggir aðgang handhafa að erlendri læknisþjónustu, mun virka áfram eins og venjulega fram í desember.

Reikigjöld fyrir farsíma – sem eru engin fyrir ESB ríkisborgarar í öðrum aðildarríkjum samkvæmt samningi sem tók gildi árið 2017 – munu einnig verða Bretum að kostnaðarlausu í ESB og öfugt, þar til í desember. Eftir að aðlögunartímabilinu lýkur, gætu þau aukist, háð því hvaða samningum Bretland nær við blokkina.

Eftir að aðlögunartímabilinu lýkur munu ferðamenn frá Bretlandi ekki þurfa vegabréfsáritanir í ferðir sem eru innan við 90 dagar til ESB, Íslands, Liechtenstein, Noregs eða Sviss. En fólk sem vill vinna, stunda nám eða ferðast vegna viðskipta, gæti þurft ítarlegri gögn.

Hvaða breytingar verða á mörkuðum?

Hlutabréfamarkaðir munu líklega meðhöndla 1. febrúar eins og venjulegan dag, í ljósi þess að BREXIT hefur verið allt annað en óhjákvæmilegt eftir kosningasigur Boris Johnson í almennum þingkosningum Breta í desember í fyrra.

En enn er þó veruleg óvissa um sjóndeildarhringinn. Bretland mun hefja viðræður um viðskipti við ESB í mars, þar sem Johnson hefur sett málið í mikinn forgang, og vill gjarnan halda eins mörgum réttindum Bretlands og mögulegt er. En Johnson langar líka til að vinda ofan af reglugerðum ESB sem gilda eins og er í Bretlandi. „ESB hefur gert það mjög ljóst að óhjákvæmilega verður að finna milliveg á milli löngunar bresku ríkisstjórnarinnar til að afnema reglur, og kröfu þeirra um aðgang að mörkuðum sambandsins,“ segir Tim Bale, aðstoðarframkvæmdastjóri Bretlands hjá Breytum Evrópu, óháðri akademískri rannsóknastofnun. „Bretland vill eins og alltaf, eiga kökuna og borða hana.“

Bretum verður einnig frjálst að hefja viðskiptaviðræður við Bandaríkin, land sem ESB er ekki með fyrirliggjandi fríverslunarsamning við. Trump Bandaríkjaforseti, hefur talað upp möguleikann á „meiriháttar“ samningi við Bretland, sem hefur möguleika á að verða „mun stærri og ábatasamari“ en nokkurt samkomulag við ESB.

En slíkur samningur, ef af verður, mun kosta sitt. Kim Darroch, fyrrverandi sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum, komst í fyrirsagnir á föstudaginn, þegar hann sagði í viðtali við The Guardian, að Trump forseti myndi þrýsta á Bretland um að samþykkja hærra verð á amerískum lyfjum og lægri staðla fyrir landbúnaðarvörur gegn viðskiptum. „Vilja þeir að við borgum meira fyrir lyfin þeirra? Vilja lyfjafyrirtækin nota þessa samningsstöðu? Auðvitað gera þeir það,“ sagði Darroch. Samningar taka síðan ekki gildi fyrr en eftir að aðlögunartímabilinu lýkur.

Gæti orðið frekari dráttur á framkvæmd BREXIT?

Johnson hefur ítrekað lofað því að á BREXIT verði ekki frekari tafir, og að aðlögunartímabilinu ljúki þann 31. desember 2020.

ESB og Bretlandi hafa því aðeins tíu mánuði til að gera samning um framtíðarsamband sitt, þar sem viðræður eiga að hefjast 3. mars nk.

Ef þeim tekst ekki að ná samkomulagi gæti þetta endað með útgöngu án samnings. Með öðrum orðum, Bretland gæti endað með að yfirgefa innri markað ESB snögglega. Það gæti þýtt biðraðir í höfnum vegna tollskoðana, mikinn samdrátt í viðskiptum yfir landamæri þegar tollar tækju gildi og nýjar takmarkanir á bresk fyrirtæki sem starfa í ESB.

Með svo mikinn meirihluta á þinginu, gæti Johnson ef til vill haft efni á því að svíkja loforð sitt um að lengja ekki aðlögunartímabilið, sérstaklega ef samningur væri í sjónmáli.