Um mánaðamótin gengur Bretland úr Evrópusambandinu (ESB) og þar með úr Evrópska efnahagssvæðinu (EES), með samningi Bretlands og ESB. Því mun regluverk ESB og aðrir alþjóðasamningar, þ.m.t. EES-samningurinn, gilda áfram um Bretland út aðlögunartímabilið sem stendur til ársloka. Frá þessu sagði á vef Stjórnarráðsins fyrir helgi.
Engin marktæk breyting verður því á samskiptum Íslands og Bretlands á þessu ári heldur byggjast þau áfram á samningum Íslands við ESB. Þótt möguleiki sé á allt að tveggja ára framlengingu aðlögunartímabilsins stefna Bretar að fullum aðskilnaði frá ESB í lok ársins.
Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum mánuðum undirbúið viðræður við Breta um hvernig framtíðarsambandi ríkjanna verður háttað. Þórir Ibsen sendiherra verður aðalsamningamaður og formaður samninganefndar Íslands. Nefndin starfar í umboði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra en umsjón og umsýsla viðræðnanna verður á verksviði viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Þá gegna sendiráð Íslands í Lundúnum og Brussel mikilvægu hlutverki í viðræðunum og undirbúningi þeirra.
Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur þegar kynnt ríkisstjórninni fyrstu samningsmarkmið Íslands fyrir framtíðarviðræðurnar.
Nánar um málið á vef Stjórnarráðsins.