Bróðir borgarstjórans setur fram samsæriskenningar um ellibelgi og Dagsheilkennið

Gauti B. Eggertsson, prófessor í hagfræði við Brown-háskólann í Bandaríkjunum, og bróðir Dags borgarstjóra í Reykjavík, blandar sér í umræðuna um borgarmálin með athyglisverðum hætti á fésbók í nótt, þar sem hann setur fram miklar samsæriskenningar um hóp manna sem séu komnir með borgarstjórann bróður hans „gjörsamlega á peruna“ eins og hann orðar það.

Telur hann að fjölbreyttur hópur leiði samsærið, þar sem eru forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ritstjóri Morgunblaðsins, eigandi DV, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, prófessor í stjórnmálafræði, fyrrverandi ráðherra og ritstjóri Viljans. Þeir taki þátt í samsærinu og séu haldnir Dagsheilkenni, eins og hann lýsir því.

„Það er þetta með Dagsheilkennið, nýr faraldur á Íslandi. Skilgreining: Sumir menn sem komnir eru fast á eftirlaunaaldur og hallast fast á hægri væng íslenskra stjórnmála virðast vera komnir með Dag borgarstjóra gjörsamlega á peruna. Dagsheilkennið virðist leggjast á þá þungt suma, ástæður óljósar. Fúkyrðaflaumur, endalausar svívirðingar, tært bull, og misheppnaðir brandarar standa útúr þeim endalaust dag eftir dag. Sumir aðrir nytsamir sakleysingjar fljóta með straumnum,“ segir Gauti.

Nýjasta afurð þessara elli-belgja er sýna sterk einkenni þessa heilkennis er Kári Stefansson

Bendir hann á að helmingur færslna Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors á fésbók þessa dagana fjalli um bróður sinn og þá sjaldan hann sjái Morgunblaðið sé svipuð snilli á ferð.

„Nýjasta afurð þessara elli-belgja er sýna sterk einkenni þessa heilkennis er Kári Stefansson í dag, æðandi útá ritvöllinn í Fréttablaðinu í sprellandi formi. Eitt einkenni Dagsheilkennisins, nú mikilvægt og áberandi einkenni sjúkdómsins, virðist vera að menn gersamlega missa allt skopskyn sem virðist fuðra algerlega upp. Þessi grein Kára er um einhverja hesta sem eru að prumpa, og ropa, eða eitthvað (ha ha ha!!!) og líta út eins og endurholdaður nasistinn Göbbels (hahahah!!!) og svo eitthverjar furðulegar samsæriskenningar um einhverja horfna tölvupósta er virðast jafnast á við Íran-Contra hneykslið, Watergate og Guð má vita hvað — en tengjast borgarstjóra á einhvern dularfullan hátt — ég átta mig satt best að segja ekki á því um hvað blessaður maðurinn er að tala,“ segir Gauti.

„Kannski einhver góðhjartaður maður eða kona geti sett af stað tólf skrefa meðferð. Þá sitja þeir í hring, Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Kari Stefansson, Björn Bjarnason, Sigurður G. Guðjónsson og fleiri, og tala saman, og Eyþór Arnalds getur verið gestafyrirlesari og haldið uppi söng (þessi fallegi D….) og kannski spilað undir á selló …… etv getur Björn Ingi Hrafnsson svo séð um bakstur, kleinur og kaffi,“ bætir hann við.