Brottvísun loftslagsflóttamanna gæti verið óheimil

Sýrlenskir flóttamenn koma til Svíþjóðar, en þeir voru að flýja átök. Mynd/Wikimedia Commons

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur úrskurðað að óheimilt sé að brottvísa flóttamönnum sem eru að flýja vegna loftslagsógnar. Um þetta er fjallað í breska miðlinum The Guardian í dag.

Úrskurðurinn, sem er hinn fyrsti sinnar tegundar, þykir marka tímamót með því að opna fyrir möguleika flóttamanna til að grípa til varna gegn höfnunum og brottvísunum, með þeim rökum að hlýnun loftslagsins á jörðinni ógni lífi og afkomu þeirra.

Kveikjan að málinu var að maður nokkur frá Kyrrahafseyju sótti um alþjóðlega vernd á Nýja-Sjálandi, sem loftslagsflóttamaður, en var hafnað. Mannréttindanefndin studdi niðurstöðu nýsjálenskra yfirvalda, þar sem enn væru nokkur ár til stefnu til að bregðast við mögulegum loftslagsbreytingum á eyjunni hans, og honum tókst ekki að sýna fram á að hann sjálfur væri í hættu vegna þeirra.

Samt sem áður segja sérfræðingar að úrskurður nefndarinnar gæti hafa opnað fyrir aðrar kröfur byggðar á hættu vegna loftslagsógnar. Nefndin úrskurðaði að „áhrif loftslagsbreytinga í móttökuríkjum geri einstaklinga varnarlausa fyrir brotum á réttindum sínum… og þar með virkist skuldbindingar sem gera brottvísunarríkinu óheimilt að hafna umsókn um vernd“.

Þótt úrskurðurinn sé ekki formlega bindandi, vísar hann á lagalegar skyldur sem lönd hafa samkvæmt alþjóðalögum.