Bubbi Morthens bætist í hóp þeirra sem fá heiðurslaun listamanna frá Alþingi

Ásbjörn Kristinsson, betur þekktur sem Bubbi Morthens, bætist í hóp þeirra sem hljóta heiðurslaun listanna, samkvæmt tillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga.

Þorsteinn frá Hamri, skáld og heiðurslaunaþegi, lést á árinu og er lagt til að Bubbi Morthens taki hans stað á listanum yfir heiðurslaunaþega.

Í tillögunni felst að eftirtaldir aðilar fái heiðurslaun:

  • Atli Heim­ir Sveins­son
  • Bubbi Mort­hens
  • Erró
  • Guðberg­ur Bergs­son
  • Guðrún Ásmunds­dótt­ir
  • Guðrún Helga­dótt­ir
  • Gunn­ar Þórðar­son
  • Hann­es Pét­urs­son
  • Hreinn Friðfinns­son
  • Jóhann Hjálm­ars­son
  • Jón Nor­dal
  • Jón Sig­ur­björns­son
  • Jón­as Ingi­mund­ar­son
  • Krist­björg Kj­eld
  • Kristín Jóhann­es­dótt­ir
  • Magnús Páls­son
  • Matt­hías Johann­essen
  • Megas
  • Steina Vasul­ka
  • Vigdís Gríms­dótt­ir
  • Vil­borg Dag­bjarts­dótt­ir
  • Þor­björg Höskulds­dótt­ir
  • Þor­gerður Ingólfs­dótt­ir
  • Þrá­inn Bertels­son
  • Þuríður Páls­dótt­ir

Allsherjar- og menntamálanefnd leggur fram breytingartillögu við frumvarp til fjárlaga ár hvert um þann hóp listamanna sem nýtur heiðurslauna.

Þeir einir geta notið heiðurslauna sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa eða skarað fram úr við listsköpun sína eða ef störf þeirra að listum hafa skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþjóðavettvangi. Taka skal tillit til skiptingar í hópi heiðurslaunamanna eftir listgreinum og kyni.

Forseti Alþingis skal skipa nefnd þriggja manna sem allsherjar- og menntamálanefnd leitar umsagnar hjá um þá listamenn sem til greina kemur að njóti heiðurslauna Alþingis. Skal einn tilnefndur af ráðherra menningarmála, einn af Bandalagi íslenskra listamanna og einn af samstarfsnefnd háskólastigsins.

Heiðurslaun listamanna eru veitt listamanni að fullu til sjötíu ára aldurs og skulu vera þau sömu og starfslaun listamanna eru á hverjum tíma. Eftir sjötugt verði þau 80% af starfslaunum.