Færri komust að en vildu, þegar lóðir fyrir 32 íbúðir í sveitarfélaginu Ölfusi voru boðnar út, en umsóknir voru komnar fyrir þær allar aðeins tveimur dögum eftir að þær voru auglýstar. Þetta kemur fram í færslu á vefsíðu bæjarstjórans, Elliða Vignissonar, í dag.
Fleiri en ein umsókn hafi borist um sumar lóðirnar, og þurfti því að draga á milli umsókna, að því er segir í færslunni.
Öllum lóðunum hafi verið úthlutað með fyrirvara um afhendingu 1. janúar nk., en gatnagerð ætti að vera lokið um miðjan desember.
Elliði vill byrja að skoða næsta áfanga
„Í ljósi þessarar miklu eftirspurnar þarf nú að skoða vandlega hvort ekki sé rökrétt að ráðast í beinu framhaldi í gatna- og lóðagerð við næsta áfanga í þessu hverfi en þar hefur þegar verið skipulagt hverfi með bæði rað- og einbýlishúsalóðum.“
Stefna bæjaryfirvalda sé að leggja kapp á að aðgengi að lóðum sé ekki takmarkandi þáttur þegar komi að vexti samfélagsins.