Dómstóll í París dæmdi í gær Söndru Muller, sem leiddi frönsku #MeToo-byltinguna til að greiða sjónvarpsmanninum Eric Brion, 20 þúsund evrur. Frá því greindu Breska ríkisútvarpið og AP news.
Muller bjó til myllumerkið #balancetonporc, eða „klagaðu svínið“ þegar #MeToo-bylgjan reis sem hæst gegn kynbundnu áreiti í október 2017. Hún tísti að Brion hefði áreitt hana með óviðeigandi athugasemdum, sem varð til þess að hundruð þúsunda slíkra frásagna kvenna birtust undir myllumerkinu.
Tímaritið Time kynnti hana til sögunnar sem eina af þeim sem „rufu þögnina“, í Manneskja ársins-heftinu 2017. Á þessum tíma hvatti Muller konur til að stíga fram og segja frá kynbundnu áreiti og mismunun á vinnustöðum.
Rétturinn til að fara á fjörurnar
Brion, fyrrum yfirmaður Equidia sjónvarpsstöðvarinnar, kvaðst kvöld eitt hafa í hrifningu sinni reynt að daðra við Muller, en gekkst aldrei við því að hafa áreitt neinn. Þau hafi aldrei starfað saman, heldur hist í kokteilboði, og að hann hafi beðið Muller afsökunar eftir atvikið. Í kjölfar tísta Muller hafi farið af stað holskefla sem hafi bakað Brion miklar raunir í lífi og starfi. Lögmaður Brion kvað hann hafa „rétt á því að fara á fjörurnar við konur.“
Brion stefndi því Muller til greiðslu bóta vegna hnekkis sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna uppátækis Muller, með þeim rökum að orð hans gætu ekki talist vera áreitni. Rétturinn féllst á það, og dæmdi Muller til að eyða tístunum og greiða Brion bætur og málskostnað upp á samtals 20 þúsund evrur.
Látið kyrrt liggja
„Dóminum er ætlað að þagga niður í fórnarlömbum. Skilaboðin eru skýr: Látið kyrrt liggja,“ er haft eftir Muller á fréttamannafundi, en hún óttast að dómurinn muni hafa fælingarmátt á konur sem vilja stíga fram með svipaðar ásakanir. Hún ætlar að áfrýja niðurstöðunni.
Brion tísti á hinn bóginn að úrskurðurinn væri „sigur fyrir réttarkerfið“ eftir „tvö ár af fágætu ofbeldi.“
Frakkar hafa átt í miklu basli við að reyna að skilgreina mörkin á milli daðurs og áreitni á tímum #MeToo-hreyfingarinnar. Vonast er til þess að dómurinn gagnist við að skýra þær línur, að sögn lögmanns Muller, sem hefur áhyggjur af framhaldinu, í ljósi niðurstöðunnar.