Markaðurinn, viðskiptablað Fréttablaðsins, segir ljóst að Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri Orkuveitunnar, hafi ekki mikla reynslu af viðskiptalífinu ef hún telji kröfur Einars Bárðarsonar fyrir hönd konu sinnar jafngilda tilraun til fjárkúgunar. Sjálfur segist Einar ekki hafa verið að hóta með bréfi sínu, en það hafi verið skrifað í mikilli geðshræringu og viðurkennir að það hafi verið óheppilega orðað.
Í dálkinum Stjórnarmaðurinn í Markaði Fréttablaðsins segir:
„Forstjórinn hefur miðað við það ekki mikla reynslu af viðskiptum, en þar er daglegt brauð að menn fari fram með slíkar kröfur, sem gagnaðilanum er einfaldlega frjálst að hafna,“
Í samtali við Ríkisútvarpið segir Einar að Helga verði bara að kæra sig, ef hún telji það nauðsynlegt:
„Ef að Helga ætlar að kæra mig þá verður hún bara að gera það,“ segir Einar. Hann segist aðeins hafa skrifað bréfið til að vekja athygli forstjóra Orkuveitunnar á málum konu sinnar og því að þau hjón vildu ræða þau mál við stjórnendur fyrirtækisins. „Í þessu felst engin hótun.“ Með þessu hafi hann viljað segja að ef ekki næðist samkomulag við stjórnendur Orkuveitunnar um starfslok Áslaugar Thelmu færi málið að öllum líkindum fyrir dómstóla.
„Ef þetta bréf er hótun þá þarf að fara með allar innheimtustofur landsins fyrir héraðsdóm og það í hvelli,“ segir Einar. Hann viðurkennir þó í samtali við Ríkisútvarpið að bréfið hafi verið óheppilega orðað. Það hafi verið skrifað í mikilli geðshræringu eftir mikið áfall og að taka verði mið af því.