Danadrottning um loftslagsmálin: Maður ferðast ekki með hjólbörum

Margrét Þórhildur Danadrottning segir að það sé langbest að halda ró sinni í loftslagsmálunum.

Margrét Þórhildur Danadrottning þykir hafa tjáð sig tæpitungulaust um loftslagsmálaumræðuna sem skekur heimsbyggðina, í drottningarviðtali við sænska Kvöldpóstinn. Danska Extrabladet tók saman hvað fram kom í viðtalinu um það atriði.

Í viðtalinu, sem ritstjórinn Magnus Ringman tók, er hún m.a. spurð að því hvort henni þætti umræðan um loftslagsmálin vera óyfirveguð. „Af og til finnst mér það. Sumir vilja meina að ástandið sé alvarlegt, og þá einkennast viðbrögðin af æsingi. Maður ætti að halda ró sinni, það er langbest. Maður ætti að kæla höfuðið, en ekki fæturna“.

Um Gretu Thunberg: Æsingur ekki til árangurs

Ringman spyr þá hvort hún kannist við sænska loftslagsaktívistann Gretu Thunberg, og drottningin svarar: „Hjá því verður ekki komist“.

Þá spyr hann drottninguna hvað henni finnist um aðkomu fullorðinna að loftslagsbaráttu barna. „Það er ágætt að æskan lætur sig málefni líðandi stundar varða. En maður ætti aldrei að bregðast við með æsingi. Það kann ekki góðri lukku að stýra. En nú er ég líka orðin gömul kona.“

Er hún var spurð að því hvað manni ætti að finnast um loftslagsvandamálin svaraði hún: „Maður þarf að gæta þess að hlýða bæði á röksemdir þeirra sem maður er sammála, en einnig þeirra sem maður er ósammála.“

Óhætt er að segja að sum svör Danadrottningar í viðtalinu minni á inntak þingsetningarræðu forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, þegar hann sagði að við hefðum „ekkert að óttast nema þá óttaslegnu“.

Sýndarmennska kemur okkur ekki áleiðis

Að lokum var Margrét Þórhildur spurð hvort hún telji að Danir og Svíar séu með ólík sjónarhorn á loftslagsmálin: „Það held ég. Það er merkilegt að í landi eins og Svíþjóð, þar sem vegalengdir eru miklar, þurfi maður að skammast sín fyrir að fljúga. Það er ekki eins og maður geti ferðast með hjólbörum frá Malmö til Haparanda, ef ég má komast svo að orði.“

Vegalengdin á milli Malmö í Suður-Svíþjóð og Haparanda í norðaustanverðu landinu eru 1.628 kílómetrar.

Ríma þessi orð hennar ágætlega við orð Forseta Íslands á facebook, í tilefni Bíllausa dagsins, þann 22. september sl.:

„Og í dag er bíllausi dagurinn, ágætis áminning um nauðsyn þess að efla almenningssamgöngur og huga að umhverfisvænum lífsstíl. En samt munu einhverjir sjá mig á bíl í dag ef að líkum lætur; að komast með fjölskylduna með strætó á þá viðburði sem fyrir liggja um borg og bí væri miklum erfiðleikum bundið, vægast sagt. Öfgar og sýndarmennska munu aldrei þoka okkur í rétta átt.“