Daniel Hannan: Finnst orkusala um sæstreng frábær hugmynd

Daniel Hannan, Evrópuþingmaður íhaldsmanna í Bretlandi. Ljósmynd/Erna Ýr Öldudóttir.

„Ég mun fara í gröfina, þenkjandi að það hefði leyst mikið af vandamálunum sem nú blasa við“, sagði Daniel Hannan, evrópuþingmaður Bretlands, í viðtali við Viljann. Hannan var einn af þeim sem studdi þá hugmynd að Bretland gengi í EFTA og yrði jafnvel aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), við útgönguna úr Evrópusambandinu (ESB). Sú tillaga nokkurra þingmanna var naumlega felld í Breska þinginu á meðan Theresa May var enn forsætisráðherra landsins. Hannan var einn af ræðumönnum á ráðstefnunni Frelsi og framtíð, sem haldin var í Salnum í Kópavogi sl. föstudag. Að henni stóðu European Students for Liberty, American Institute for Economic Research (AIER) og tímaritið Þjóðmál.

Hannan hélt erindi, sem hann byrjaði á að dást að hinni frelsiselskandi þjóð, Íslendingum. Sjálfur lýsti hann yfir furðu sinni á því að gegna enn stöðu evrópuþingmanns Bretlands, þar sem að Bretland ætti nú þegar að vera gengið úr ESB. Ferlið við að fylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um BREXIT, hefur gengið vægast sagt brösuglega, þar sem þingið getur ekki komið sér saman um hvernig útgöngunni verði háttað. Hannan er íhaldsmaður og styður tilraunir Boris Johnson til að klára málið.

Daniel Hannan hélt erindi m.a. um stjórnmálin í Bretlandi. Ljósmynd/ Erna Ýr Öldudóttir.

Útvíkkun EES með Bretland í forystu

„Við [Bretland] ættum að reyna að halda aðild okkar að mörkuðunum, en yfirgefa hinar pólitísku stofnanir“, segir Hannan, sem viðurkennir að hafa áður ekki verið neinn sérstakur aðdáandi EES. „Mér fannst við ættum að einbeita okkur að EFTA og Sviss. En ég hefði verið tilbúinn að sættast á aðild að EES, ef það gæti hjálpað Bretlandi að komast á sársaukaminni hátt úr ESB. En ég er hræddur um að möguleikinn á því sé nú genginn okkur úr greipum.“

„Vandamálið við EES er að Bretland er að miklu leyti þjónustudrifið, og EES samningur mundi þýða að regluverk ESB gildir áfram um fjármálaþjónustu. En, við hefðum getað reynt að semja um lausn á því.“ Hannan hefur varpað fram þeirri hugmynd að EES gæti orðið, undir forystu Bretlands, einskonar ytri hjúpur utan um ESB, með löndum sem annað hvort vildu ekki vera eða gátu ekki orðið aðildarríki sambandsins. Þar á hann ekki aðeins við EFTA-ríkin, heldur einnig lönd eins og t.d. Tyrkland, Marokkó og Ísrael. „Í raun hvaða land sem sem væri í þessum heimshluta [í eða nálægt Evrópu], sem vill stunda frjáls viðskipti en ekki verða aðildarríki að sambandinu.“

Spurður um hvort hann teldi að aðild Breta að EFTA/EES hefði ekki gefið öllum þeim ríkjum aukna vigt í samningum við ESB sagði Hannan: „Aðild Breta gæti gefið EFTA/EES gríðarlega styrkta samningsstöðu gagnvart ESB, þar sem að það er mikill munur á markaði með 11 eða 78 milljón manns.“

Telur orkusamstarfinu slitið með „no-deal“

Um það hvort honum sýnist EES-samningurinn hafa gagnast Íslandi, og um álit hans á áframhaldandi veru Íslands í EES í framhaldi af miklu rifrildi hérlendis um orkumálin, sagði Hannan: „Ég heimsótti Ísland síðast árið 1994, þegar EES samningurinn hafði nýlega verið undirritaður. Hinar jákvæðu umbreytingar sem hér hafa átt sér stað í framhaldinu, eru vægast sagt stórkostlegar,“ og bætir við að halda því fram að EES samningurinn sé slæmur fyrir Ísland sé óheiðarlegt.

Að lokum spurði Viljinn hver staðan yrði í orkumálum Bretlands gagnvart ESB, hann kvaðst ekkert geta fullyrt um það, en gerði ráð fyrir að ef landið yfirgæfi sambandið án samnings (no-deal), þá yrði samstarfi í orkumálum jafnframt slitið, eins og öllu öðru samstarfi sem telst vera hluti af ESB aðildinni. Þar með mundi Ísland væntanlega ekki tengjast orkumarkaði ESB með lagningu sæstrengs frá Íslandi til Bretlands.  „Mér finnst hugmyndin um að Íslendingar selji orku um sæstreng vera alveg frábær. En það er auðvitað ykkar að ákveða hvað þið viljið gera.“