Davíð Oddsson: Frelsið lagt í einelti

Davíð Oddsson flutti erindi á ráðstefnunni Frelsi og framtíð. Mynd/Erna Ýr Öldudóttir

„Hið opinbera er ekki uppspretta fjár. Það verður ekkert fé til hjá hinu opinbera,“ sagði Davíð Oddsson, fyrrverandi ráðherra og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á ráðstefnunni Frelsi og framtíð, sem fram fer í dag í Salnum í Kópavogi.

Fyrir henni standa European Students for Liberty, American Institute For Economic Research (AIER) og tímaritið Þjóðmál. Davíð gagnrýndi að stjórnmálaflokkarnir væru allir orðnir eins, að kosningabaráttan snerist um að lofa hinum og þessum hagsmunahópum meiri peningum, og að allir sem ætluðu að nálgast málin á annan hátt væru kallaðir lýðskrumarar.

„Þeir sem ætla að taka peninga almennings og lofa að dreifa þeim í hina og þessa hagsmuna hópa. Það eru hinir raunverulegu lýðskrumarar!“

Davíð Oddsson. Ljósmynd/Erna Ýr Öldudóttir

Davíð talaði um að hræðsluáróður væri gjarnan notaður til að hræða fólk og stjórnvöld til að eyða miklum peningum. Hann kvaðst sjálfur hafa fallið fyrir „2000-vandanum“ á sínum tíma, og þá hafi stjórnvöld látið gabba sig í að eyða miklum peningum í að bregðast við þeim vanda, sem reyndist vera meira eða minna ímyndaður.

Nú væri mikið talað um hluti eins og „kulnun“, sem hann vonaði að gæti gagnast gegn hlýnun jarðar vegna loftslagsbreytinga. Eins væri mikið rætt um einelti, og sagði hann að þessa dagana væri það helst frelsið sem sé lagt í einelti – en það geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.