Margir kannast eflaust við bandaríska spjallþáttastjórnandann Dr. Phil, sem varð frægur eftir samtstarf sitt við Ophrah Winfrey. Hann hefur verið með sinn eigin þátt frá árinu 2002 og margoft hlotið fyrir hann Emmy verðlaun.
Þættirnir eru þekktir fyrir drama og grátbroslegar uppákomur, en Philip McGraw, sem er hans rétta nafn, hefur efnast talsvert á þáttunum og persónu sinni sem Dr. Phil.
Nú hefur hann sett eitt húsa sinna á sölu, sbr. grein í Los Angeles Times, og hefur það vakið verðskuldaða athygli fyrir sérviskulegt innbú og innréttingar sem eru einnig til sölu. Að sögn fulltrúa hans hefur hann þó aldrei búið þar sjálfur, heldur sonur hans.
Ekki verður annað sagt um stílinn, en að heimurinn tilheyri þeim sem þora.

Ævintýraleg ljósakróna hangir niður úr loftinu í holinu. Það er fjólublátt ljós við flísalagðan bar í sundlaugarbakkastíl, og barstólarnir eru svartir með fálmara-baki. Vinalegar bleikar varir með bangsa mæta manni í stiga upp á næstu hæð, og um handriðið allt vefjast langar rætur sem minna á risasmokkfisksarma.

Hríðskotabyssusafnið í dimmri borðstofunni kallast á við sterkt grátónamynstrað teppi með einum dökkrauðum bletti og áklæðið á stólunum. Múmíureifa-ljósakróna hangir yfir borðstofuborðinu, en litríkar fígúrur hér og þar lífga aðeins upp á herbergið.

Billjarðstofan er björt í siglingaklúbbs-litum, með hringlaga skákborðsmynstri í loftinu við gluggana. Fígúrur hafa hreiðrað um sig upp við smokkfisksarma-handriðið. Pool-borð stendur á fjórum postulínsljónum undir kertastjakaljósakrónu, við hliðina á hlýlegum gervi-arni. Gólfið er lakkað fagurblátt og virkar eins og eitthvað hvítt hafi púðrast upp úr hornvösunum á borðinu niður á gólfið. Yst vinstra megin er vínkælir.

Í dökkri forstofunni mætir manni vínrauður, egglaga og gataður hengistóll. Beint á móti er stór mynd í skærgulum ramma, af upphleyptum bangsa með áletruninni FUCK, og áföstum bleikum dúsk. Undir myndinni er skræpótt koffort og við hlið þess stendur plantan úr Litlu-Hryllingsbúðinni. Fleiri barnalegar fígúrur sjást inni í stofu, en stór hafnarboltakylfa stendur við hlið útidyranna.
Húsið með sérsmíðuðum innréttingunum, fæst fyrir 5,75 milljónir dollara og er í Los Angeles. Sannarlega áhugaverð eign fyrir alla sem kunna að meta stílinn úr Dallas, J.P. Lovecraft, Scarface, Beetlejuice og Lísu í Undralandi, og hafa hann í bland heima hjá sér.
Fleiri myndir og upplýsingar má skoða í grein Los Angeles Times.