Dómstóll götunnar: Fjölmiðlar sækja til saka og vilja svipta lífsviðurværi

Ragnar Önundarson fv bankamaður.

„Galdrabrennur eru úreltar. Að velja fórnarlömb og tilefni úr mörgum er vægast sagt umdeilanlegt. Smánun umræðunnar er heilmikil refsing,“ segir Ragnar Önundarson fv. bankamaður um umræður síðustu daga um alþingismennina sex og alræmdar umræður þeirra á Klausturbar.

Ragnar segir að í fjölmiðlum fari fram munnlegur málflutningur fyrir dómstóli götunnar.

„Fjölmiðlar fóru með saksóknina. Sökudólgarnir eiga sér augljóslega engar málsbætur, svo ekki þykir taka því að skipa þeim verjendur. Þar sem líflát er ekki leyft hér á landi er ekki unnt að beita því úrræði. Svipting lífsviðurværis er því nærtækasta úrræðið, eins og fordæmi eru fyrir þegar menn þykja misfara með tjáningarfrelsið,“ segir Ragnar.

Hann bendir á að siðanefnd Alþingis hafi óskað eftir afriti af upptökum á Klausturbar. „Nefndin ætti að byrja á að afla sér álits Persónuverndar á lögmæti þess að samtöl séu tekin upp án vitundar og dreift án heimildar viðkomandi. Að fengnu því áliti getur nefndin snúið sér að því að hlusta á samtöl nokkurra þingstaula sem sátu röflandi að sumbli,“ segir hann.