Á árinu 2017 varð dr. Jordan B. Peterson einn vinsælasti hugsuður og fyrirlesari heims. Yfir hundrað milljón áhorfendur um allan heim hafa séð fyrirlestra hans á YouTube en þar lýsir hann djúpstæðum tengslum taugafræði og sálfræði við elstu sögur mannkyns. Þar talar hann einnig á ákveðinn og blæbrigðaríkan hátt um persónulega ábyrgð og þá merkingu sem hún gefur lífinu.

Á tímum örra og róttækra breytinga, þegar grunnstoðir fjölskyldunnar láta undan síga, menntun breytist í innrætingu og samfélagið leggst í hættulegar pólitískar skotgrafir, bjóða Tólf lífsreglur – Mótefni við glundroða sannleikann — ævafornan sannleika sem svar við brýnum vanda nútímans.

Tólf lífsreglur er Bók vikunnar hér á Viljanum og birtum við hér stutt brot úr bókinni, sem gefin var út á síðasta ári í íslenskri þýðingu af Almenna bókafélaginu.

——–

Þegar kommúnistar komu á ráðstjórn í Rússlandi við lok fyrri heimsstyrjaldar mátti fyrirgefa þegar fólk vonaði að hægt væri að framkvæma draumana sem nýju leiðtogar þeirra héldu á lofti um fyrirmyndarríkið og sameignarstefnuna. Hrörnandi þjóðskipulag nítjándu aldar hafði leitt af sér skotgrafir og blóðbað í styrjöldinni miklu 1914–1918. Bilið milli ríkra og fátækra var yfirgengilegt og flestir bjuggu við þrældóm og verri aðstæður en Orwell skrifaði síðar um. Enda þótt fréttir bærust til Vesturlanda um hryllinginn sem Lenín kom á eftir rússnesku byltinguna var erfitt að meta gerðir hans úr fjarlægð. Rússland var í glundroða eftir keisaratímann og fréttir af víðtækri iðnvæðingu og endurdreifingu eigna til þeirra sem höfðu fyrir svo skömmu verið ánauðugir bændur gáfu tilefni til bjartsýni. Til að flækja málin enn frekar studdu Ráðstjórnarríkin (og Mexíkó) lýðræðislega lýðveldissinna þegar spænska borgarastyrjöldin braust út árið 1936. Þeir börðust gegn þeim sem voru að grunni til einræðisþjóðernissinnar og höfðu kollvarpað viðkvæmu lýðræði sem hafði verið komið á aðeins fimm árum áður. Þeir nutu stuðnings þýskra þjóðernisjafnaðarmanna og fasískra skoðanabræðra á Ítalíu.

Menntamenn í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar voru verulega reiðir yfir hlutleysi heimalanda sinna. Þúsundir útlendinga streymdu til Spánar til að berjast fyrir lýðveldissinna og þjónuðu í alþjóðlegu hersveitunum. George Orwell var einn þeirra. Ernest Hemingway var þar fréttaritari og studdi einnig lýðveldissinna. Ungum Bandaríkjamönnum, Kanadamönnum og Bretum fannst sér bera siðferðisleg skylda til að hætta að tala og byrja að berjast.

Allt þetta dró athyglina frá því sem var að gerast undir ráðstjórn. Á fjórða áratug, í kreppunni miklu, sendi ríkisstjórn Jósefs Stalíns tvær milljónir kúlakka, stéttar betur stæðra sjálfseignarbænda (þá sem áttu fáeinum kúm meira en almennt gerðist, höfðu örfáa starfsmenn eða nokkra hektara umfram það algengasta) til afskekktra svæða Síberíu. Frá sjónarmiði kommúnista höfðu kúlakkar þessir safnað auði sínum með því að arðræna fólk umhverfis þá og áttu þessi örlög skilið. Auður þýddi kúgun og einkaeign var þjófnaður. Runninn var upp tími til að koma á jöfnuði. Yfir þrjátíu þúsund kúlakkar voru skotnir á staðnum. Margir aðrir mættu örlögum sínum af hendi þeirra nágranna sinna sem voru öfundsjúkastir, beiskastir og óduglegastir en notuðu háleitar hugmyndir samyrkjustefnu kommúnista til að leyna drápsfýsn sinni.

Dr. Jordan Peterson sálfræðiprófessor.

Kúlakkar voru „óvinir fólksins“, apar, óþverri, skítur, óværa og svín. „Við búum til sápu úr kúlökkum“ var slagorð eins af grimmilegri hópum sem Flokkurinn og framkvæmdanefndir ráðstjórnarinnar stofnuðu og sendu frá borgum út til sveita. Kúlakkar voru reknir naktir út á götur, barðir og neyddir til að grafa eigin grafir. Konunum var nauðgað. Eigur þeirra voru „gerðar upptækar“ sem í framkvæmd þýddi að hús þeirra voru tæmd uns ekkert var eftir annað en burðarbitar og þaksperrur. Öllu var stolið. Á mörgum stöðum veittu aðrir bændur mótspyrnu, einkum konur sem reyndu að umkringja ofsóttar fjölskyldur og verja þær með líkama sínum. Slíkt var ekki til neins. Kúlakkar sem lifðu af voru sendir í útlegð til Síberíu, oft um miðjar nætur. Lestirnar lögðu af stað í febrúar í nístingskulda rússnesku sléttnanna. Á áfangastað þeirra, jafnvel lengst inni í eyðilegu barrskógabelti, beið húsnæði sem var langt frá því að vera íbúðarhæft. Margir dóu, einkum börn, úr berklum, mislingum og skarlatssótt.

Þessi „sníkjudýr“, kúlakkarnir, voru yfirleitt færustu og duglegustu bændurnir. Lítill minnihluti ber ábyrgð á besta árangrinum á hvaða sviði sem er og það er ekkert öðruvísi í landbúnaði. Landbúnaðarframleiðslan hrundi í kjölfarið og það litla sem eftir stóð var tekið með valdi úr sveitum og flutt til borga. Sveitafólkið sem fór út á akur eftir uppskerutíma til að tína upp einstaka hveitikorn handa hungruðum fjölskyldum sínum átti á hættu að verða líflátið. Sex milljónir manna dóu úr hungri í Úkraínu, matarkistu Sovétríkjanna, á fjórða áratug. „Það er villimennska að borða börnin sín,“ stóð á veggspjöldum ráðstjórnarinnar.

Gunnlaugur Jónsson fjárfestir stóð fyrir því ásamt fleirum að fá dr. Peterson hingað til lands í fyrra og hélt hann tvo fyrirlestra í Hörpu fyrir fullu húsi. Hér má sjá myndband af fyrri fyrirlestrinum.

Þrátt fyrir að meira en orðrómur stæði að baki um slík óhæfuverk voru viðhorf margra vestrænna menntamanna til kommúnisma enn fremur jákvæð. Önnur áhyggjuefni voru fyrir hendi og í síðari heimsstyrjöld mynduðu Ráðstjórnarríkin bandalag með Vesturveldunum gegn Hitler, foringja Þýskalands, Mússólíní, einræðisherra Ítalíu og Híróhító, keisara Japans. Sumir voru þó árvökulir og fylgdust með. Blaðamaðurinn Malcolm Muggeridge skrifaði greinaröð fyrir Manchester Guardian og lýsti því hvernig ráðstjórnin hafði gjöreyðilagt landbúnaðinn þegar árið 1933. George Orwell skildi hvað var að gerast hjá Stalín og sagði frá því víða. Hann sendi frá sér bókina Dýrabæ (e. Animal Farm), dæmisögu og háðsádeilu á Ráðstjórnarríkin, árið 1945 þótt útgáfa bókarinnar hafi mætt alvarlegri andstöðu. Margir sem hefðu átt að vita betur héldu áfram að þrjóskast við löngu eftir þetta. Þetta var hvergi sannara en í Frakklandi og hvergi í Frakklandi var það sannara en meðal menntamanna.

Frægasti heimspekingur Frakka um miðja öldina, Jean-Paul Sartre, var vel þekktur kommúnisti, þótt hann hefði ekki verið skráður í Flokkinn, uns hann fordæmdi innrás Ráðstjórnarríkjanna í Ungverjaland árið 1956. Hann hélt þó áfram að tala fyrir marxisma og gafst ekki endanlega upp á ráðstjórninni fyrr en 1968 þegar Rauði herinn beitti valdi til að brjóta umbætur Tékkóslóvaka á bak aftur í „Vorinu í Prag“.

Skömmu síðar kom út bók Aleksandrs Solzhenítsyns, Gúlageyjaklasinn, sem við höfum rætt nokkuð ítarlega í fyrri köflum. Eins og kom fram (og vert að ítreka enn og aftur) gjöreyðilagði þessi bók siðferðislegan trúverðugleika kommúnismans — fyrst á Vesturlöndum og síðan í ráðstjórnarkerfinu sjálfu. Hún barst manna á milli neðanjarðar sem samizdat-rit. Í því fólst að Rússi hafði sólarhring til að lesa hið fágæta eintak sitt áður en hann þurfti að afhenda það næsta hugsandi lesanda. Radio Liberty sendi upplestur á efni bókarinnar á rússnesku inn í Ráðstjórnarríkin.

Solzhenítsyn hélt því fram að ráðstjórnin hefði aldrei lifað án harðstjórnar og þrældóms, að fræjum verstu öfganna hefði verið sáð á tíma Leníns (sem vestrænir kommúnistar héldu enn hlífiskildi yfir) og síðar viðhaldið með botnlausum lygum, bæði af hálfu einstaklinga og opinberra aðila. Syndir þeirra væru ekki einfaldlega persónudýrkun að kenna eins og fylgjendur þeirra héldu enn fram. Solzhenítsyn skýrði frá víðtækum misþyrmingum á stjórnmálaföngum, spilltu lagakerfi og fjöldamorðum, ásamt því að sýna fram á í átakanlegum smáatriðum hvernig hér var ekki um að ræða undantekningar heldur beinlínis birtingarmynd sjálfrar heimspeki kommúnismans. Enginn gat tekið upp hanskann fyrir kommúnisma eftir að Gúlageyjaklasinn kom út — ekki einu sinni kommúnistar sjálfir.

Þetta þýddi ekki að hrifningin, sem hafði vaknað meðal menntamanna á marxískum hugmyndum, væri úr sögunni. Hún einungis umbreyttist. Sumir neituðu hreinlega að læra. Sartre fordæmdi Solzhenítsyn sem „hættulegan aðila“. Derrida fór fínna í það og skipti út hugmyndinni um peninga fyrir hugmyndina um vald og hélt kátur leiðar sinnar. Slíkar málfarslegar sjónhverfingar gáfu öllum marxistunum, sem varla iðruðust og sátu sem fastast í æðstu menntastöðum á Vesturlöndum, færi á að halda í heimssýn sína. Þjóðfélagið byggði ekki lengur á því að ríkir kúguðu fátæka. Allir væru kúgaðir af valdastéttinni.