DV, annar þeirra fjölmiðla sem birti svonefndar Klaustursupptökur í nóvember sem skóku þjóðmálaumræðuna, segir í Sandkorni í dag að nýjar skoðanakannanir sýni að Miðflokkurinn undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sé ódrepandi.
Slíkt mál hefði getað orðið banabiti annarra flokka.
„Tvær síðustu skoðanakannanir á fylgi flokkanna hafa sýnt svo ekki verður um villst að Miðflokkurinn er ódrepandi. Í þeirri fyrri fékk hann tæplega fimm prósent og í þeirri seinni tæplega sex. Ætla mætti að rúmlega helmingun á fylgi sé verulegt áfall fyrir flokk en kannanirnar sýna að lægstu mörk flokksins myndu koma nokkrum fulltrúum á þing í kosningum,“ segir í Sandkorni DV.
„Mál eins og Klaustursmálið hefði hæglega getað drepið annan flokk. Ef þetta hefðu til dæmis verið fulltrúar Viðreisnar væri sá flokkur svifinn til forfeðra sinna.
En persónufylgi Sigmundar Davíðs er slíkt að töluvert stór hluti þjóðarinnar myndi vaða eld og brennistein fyrir hann og trúa hvaða samsæriskenningu sem hann setur fram,“ bætir blaðið við.
„Það var því rétt ákvörðun fyrir hann að taka málið á hnefanum,“ segir DV ennfremur.