Efasemdir um að RÚV ráði við lögbundið hlutverk sitt

Afar illviðrasamt getur orðið á Íslandi á vetrum. Skjáskot/Youtube

„Ríkisútvarpið á að vera öryggistæki, en það var ekkert notað. Það var bara einhver síbylja. Það var ekkert verið að koma inn, á hálftíma, klukkutíma fresti með skilaboð til fólksins, það var ekkert í gangi“, Bjarni Óskarsson, fyrrum veitingamaður, sem rekur býli í Svarfaðardal, í Bítinu á Bylgjunni í morgun, um útvarpsútsendingu Ríkisútvarpsins (RÚV) í stórviðrinu sem gekk yfir landið í þarsíðustu viku.

Bjarni, eins og sveitungar hans fyrir norðan, varð innlyksa og rafmagns- og sambandslaus við umheiminn. Hann náði engu netsambandi eða útsendingum, en fann gamalt langbylgjuútvarp ofan í kassa og braust út að leita að rafhlöðum í tækið, sem hann fann. Þannig vonaðist hann til að fá upplýsingar um gang mála, en það hafi verið til einskis.

„Svo skilst mér að það eigi að loka langbylgjunni á næsta ári, en þetta er það eina sem virkar.“

Spurt hversvegna fréttamenn RÚV voru ekki á staðnum

„RÚV sendir ítrekað fréttamenn hálfa leið yfir hnöttinn, til Namibíu, en lætur vera að senda fréttamenn á hamfarasvæði á Íslandi.“

Páll Vilhjálmsson.

Þetta segir Páll Vilhjálmsson, blaðamaður og kennari, í Staksteinum Morgunblaðsins í dag, en honum finnst „einkennilegt fréttamat birtast enn og aftur“ hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Hann spyr m.a. hversvegna fréttamenn RÚV hafi setið við símann í Efstaleiti þegar náttúruhamfarir skullu á norðurlandi en flogið reglulega til Namibíu í „ómerkilegum“ erindagjörðum – og sakar stofnunina um að misnota almannafé í „fréttaskáldskap“ í Namibíu, en sinna ekki lögbundnu hlutverki sínu á Íslandi.

„Þegar RÚV afsakar fjarveru sína frá hamfarasvæðinu á Íslandi með þeim orðum að: „stundum voru upplýsingar frá einni stofnun þvert á upplýsingar frá annarri stofnun“ blasir spurningin við: hvers vegna voru fréttamenn RÚV ekki á staðnum?“