Efnahagsuppsveiflunni sem við höfum búið við er lokið

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var gestur í beinni útsendingu í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í beinni útsendingu í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins, að efnahagsuppsveiflunni sem landsmenn hafa notið undanfarin ár, sé lokið.

Halldór sagði að miklar fjöldauppsagnir á síðasta ári séu órækur vitnisburður þess að hagkerfið sé að breyta um takt. 

„Þessi mikla uppsveifla, efnahagsuppsveifla sem við höfum búið við undanfarin ár… henni er lokið,“ sagði Halldór Benjamín.

Hann segir að opinberar tölur sýni að fyrirtækin í landinu hafi bætt við sig fólki í hverjum einasta ársfjórðungi allt frá hruni, en nú séu þau byrjuð að segja upp fólki í nokkrum mæli. Talsverð fækkun sé því miður í kortunum.

Hann hvetur til skynsamlegra kjarasamninga, því of miklar launahækkanir geti þýtt að fyrirtækin þurfi að fækka fólki enn meira. 

„Það gæti orðið óumflýjanlegt hjá mörgum fyrirtækjum en við erum ekki ennþá komin á þann stað. Við þurfum að ræða þetta af yfirvegun og ábyrgð. Við höfum ennþá tíma til að létta á þeirri óvissu sem liggur eins og mara á atvinnulífinu. Það gerum við með því að ná skynsamlegum kjarasamningum.“