„Ég held að samband mitt við pabba hafi mótað mig meira en mig grunar“

Eva María Mattadóttir þjálfari og verkefnastjóri er 27 ára, hún er fædd í San Diego, Californiu. Hún ólst upp í vesturbæ Kópavogs og býr þar enn. 

Hún vinnur sem þjálfari hjá Dale Carnegie og hefur gert í 4 ár. Áður lærði hún leiklist í Californiu ásamt markþjálfun og hefur í gegnum tíðina sankað að sér allskonar lærdómi, í skóla og í gegnum mörg mistök og hliðarspor í lífinu. „Ég er opin manneskja og tilbúin til þess að taka því sem kemur upp á teninginn, en geri alltaf mitt besta til að fara mína eigin leið og hjálpa fólki í leiðinni að efla sig hvað varðar sjálfstraust og tjáningu. Ég og kærastinn minn eigum líka tvö börn, 1 og 4 ára svo það er nóg að gera á hverri stundu“. 

Þessa dagana er Eva María í upptökum fyrir Normið podcast og að þjálfa mikið hjá Dale. 

„Þvílíka stuðið sem Normið er! Við Sylvia Briem Friðjónsdóttir erum með podcast sem heitir Normið og sú hugmynd kom frá Sylviu í ágúst í fyrra. Þátturinn gengur út á að tala um mannlegheit. Allt það erfiða, frábæra, skrítna, óþægilega og fyndna sem mannskepnan gerir. Við tölum um allan skalann og sköfum ekki af neinu. Til okkar koma líka gestir sem við getum öll lært af, fyrirmyndir úr þjóðfélaginu sem láta fátt stoppa sig“.

Sylvia Briem og Eva María

Eva María þjálfar fólk á öllum aldri og segir það það ótrúlega góða æfingu í sveigjanleika að takast á við mismunandi karaktera á hverjum einasta degi. 

„Ég syng heilmikið heima og í bílnum því það gefur mér næringu og svo finn ég mér oft eitthvað nýtt að prufa til að halda lífinu fersku. Til dæmis fór ég á hjólabretta námskeið um daginn og sigraðist á miklum ótta við hjólabretti, þvílíkt afrek! Nú er ég að vinna í að bæta við mig BA í sálfræði í Háskólanum á Akureyri og er hálfnuð með það“. 

Þegar Eva María var spurð hvaðan þörfin fyrir að leiða annað fólk að betri lífsstíl hafði hún þetta að segja : „Ég held að samband mitt við pabba hafi mótað mig meira en mig grunar. Við höfum margoft rætt mannlega hegðun og samskiptin eru alltaf einlæg en samt beinskeitt. Það er svo gott að eiga samræður þar sem meðvirknin er engin og allt er uppi á borðinu. Ég hef alltaf leitað í að hjálpa fólki að líða betur en ég komst að því að ég varð að byrja á sjálfri mér. Það er kannski klisja að segja það en ég gæti ekki þjálfað fólk í átt að raunverulegri vellíðan í dag ef ég hefði ekki þjálfað sjálfa mig fyrst“.

Hlakkar Eva María mikið til að takast á við óvissuna og ævintýrin sem eru framundan.

„Ég held ég muni nýta lífið í að ögra sjálfri mér og leita af skemmtilegum upplifunum þar til ég kveð þennan heim, þetta er óútskýranlega góð tilfinning“.

Hvað er svo planið hjá Evu Maríu það sem eftir er af sumri ?

„Í sumar fór ég í langa útilegu á Grundarfirði með fjölskyldunni, sem er falin perla finnst mér. Svo hef ég eiginlega bara verið úti í sólinni með börnunum! Var svo heppin að fá að vera með þau í sumarfríi í allt sumar og þó það hafi verið mjög krefjandi suma daga, hefur þetta verið dýrmætur tími með þeim. Þjálfun hjá Dale Carnegie hefur líka tekið pláss í sumar og þar fæ ég að þjálfa fólk í að uppgötva styrkleikana sína, svo ég myndi segja að sumarið mitt hafi vægast verið mikið forrréttinda sumar. Sikiley og spennandi hlutir með Norminu eins og LIVE show eru næst á dagskrá! “


Íslendingar eru allskonar, sem gerir það að verkum að þjóðin er ekki síður skapandi en þenkjandi. Fólk sem hefur fæðst hér og flutt hingað setur sitt skemmtilega mark á samfélagið sem færist síðan stundum með þeim út í heim. Eins og oft hefur verið sagt, ætli það sé ekki eitthvað í vatninu. Viljinn náði tali af nokkrum einstaklingum til þess að sjá hvað þeir eru að gera í lífinu og hvað þau hafa gert í sumar og hvað planið sé þar til sumri lýkur.  – María Rún Vilhelmsdóttir tók saman.