Eigum að hugsa um þau gildi sem við viljum hafa að leiðarljósi

„Undanfarna tvo daga hafa fjölmiðlar sagt fréttir af háværum samræðum nokkurra þingmanna á almannafæri sem eru uppfullar af fordómum, kvenfyrirlitningu og óheilbrigðum viðhorfum til stjórnmála. Þau orð sem komu úr munni þingmannana eru ótrúleg og dapurleg. Ég hélt satt að segja að við værum komin lengra á veg í raunverulegri viðhorfsbreytingu, núna ári eftir #églíka-byltinguna,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í færslu sem hún birti í dag á opinberri facebook-síðu sinni.

„Forsætisnefnd Alþingis mun fara yfir málið. Það er mikilvægt að Alþingi fari vel yfir málið og grípi til aðgerða. Það er samt ekki nóg því við sem samfélag þurfum að taka sameiginlega á því meini sem svona orðræða skapar; þeim ótta og þeirri vanlíðan sem hún veldur. 

Nú þegar við fögnum hundrað ára afmæli fullveldisins eigum við að hugsa um þau gildi sem við viljum hafa að leiðarljósi í samfélagi okkar. Þar hljótum við að vilja að hafa gildi á borð við jafnrétti og virðingu í hávegum. Sú orðræða sem við höfum lesið um í fjölmiðlum er því miður í fullkominni andstöðu við slík gildi. Sem samfélag eigum við að hafna slíkri orðræðu,“ segir Katrín.