Einkenni á heilbrigðu samfélagi að fólk takist málefnalega á

F.v.: Axel Ingi Ólafsson, Páll Gestsson, Jakob Andri Þórarinsson, Davíð Snær Jónsson, Jóhann Hinrik Jónsson, Magnús Geir Björnsson og Sverrir Ólafur Torfason. Á myinda vantar: Magdalenu Önnu Torfadóttur, Elvar Egilsson, Arnald Árnason, Sigurjón Gauta Friðriksson og Sigurð Ingva Gunnþórsson.

Samtök frjálslyndra háskólanema voru stofnuð á Kringlukránni í Reykjavík í gær, að því er fram kemur í tilkynningu frá samtökunum. Stjórnin var sett saman á stofnfundi og fundurinn samþykkti Davíð Snæ Jónsson sem formann. 

Stjórnarmenn eru Jakob Andri Þórarinsson, Magdalena Anna Torfadóttir, Elvar Egilsson, Jóhann Hinrik Jónsson, Arnaldur Árnason, Sverrir Ólafur Torfason og varamenn eru Páll Gestsson, Axel Ingi Ólafsson, Magnús Geir Björnsson, Sigurjón Gauti Friðriksson og Sigurður Ingvi Gunnþórsson.

„Ekkert annað slíkt félag er til á Íslandi, við teljum að margir séu sammála hugmyndafræðinni í grunninn, þó auðvitað greini fólk á um einstaka atriði. Við viljum vinna með grunnhugmyndafræði frjálshyggjunnar og ræða málefni líðandi stundar. Við viljum leggja áherslu á að treysta á frjáls viðskipti og sjálfsprottnar venjur og takmarka ríkisvaldið,“ segir Davíð Snær í samtali við Viljann, en hann var áður formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema.

Frelsisstefnan breidd út

Honum var vikið úr því embætti af stjórninni eftir að hafa gagnrýnt hugmyndir um kynjafræði sem skyldufag til kennslu í framhaldsskólum opinberlega, m.a. með orðunum: „..kynjafræði er eins og marxísku fræðin, pólitísk hugmyndafræði.” 

Hinum nýstofnuðu Samtökum frjálslyndra háskólanema er ætlað að breiða út hugmyndir frjálshyggju, og að stefna félagsins er að mennta, styrkja og fræða frelsisþenkjandi einstaklinga, meðal annars með greinaskrifum, fyrirlestrum og málfundum.

Samtök frjálslyndra háskólanema stefna að því að boða út frelsisstefnuna út frá þremur grundvallaratriðum; efnahagslegu frelsi, akademísku frelsi og frelsi einstaklingsins, að því er fram kemur í tilkynningunni, en í henni segir jafnframt að vegna rísandi sósíalískra afla í samfélaginu hafi stofnendurnir séð ríka ástæðu fyrir stofnun samtakanna. 

Þegar Viljinn spurði Davíð Snæ hvort þau væru tilbúin í þær umræður sem kunna að skapast um stofnun samtakanna á þessum grundvelli svaraði hann:  „Það eru einkenni á heilbrigðu samfélagi að fólk takist málefnalega á um menn og málefni og við kvíðum því ekki að þurfa að eiga slíkt samtal.”