Einmanaleiki er afar sársaukafull tilfinning sem fólk upplifir við ákveðnar aðstæður, til skemmri eða lengri tíma. Til að vera hamingjusöm þurfum við náin tengsl við aðra, finnast við tilheyra, og að fá að sýna og taka á móti umhyggju. Sterk og stöðug tengsl við aðra eru hugsanlega lykillinn að hamingjusömu lífi.
Einmanaleikinn er að drepa fólk, í orðsins fyllstu merkingu. Kannanir og rannsóknir sýna fram á einmanaleika sem vaxandi vandamál í heiminum, sem ekki aðeins skerðir lífsgæði til muna, heldur eykur talsvert líkurnar á geðtruflunum, bólgu- og hjartasjúkdómum, krabbameini, Alzheimer og ótímabærum dauða. Um þetta er fjallað í grein í The Epoch Times.
Fyrir árið 1960 var sjaldgæft að fólk um heim allan byggi eitt, en eftir það hefur það aukist til muna. Í dag búa um 40% íbúa stórborga einir, og 22-23% fólks í Bretlandi og Bandaríkjunum upplifa sig einmana, vinalaus og útundan. Fram að þessu hefur einmanaleiki oftar hrjáð unglinga og eldra fólk, en sú kynslóð fólks sem virðist ætla að verða sérstaklega illa úti er hin svokallaða Þúsaldarkynslóð (e. Millenials). Þau eru lauslega skilgreind sem fólkið sem fæðist upp úr árinu 1980 fram til síðustu aldamóta.
Fjölskyldan á fallanda fæti
Margar greinar og rannsóknir hafa verið skrifaðar og birtar undanfarið um þetta risavaxna og stækkandi vandamál. Færri barneignir, barnleysi, skilnaðir, opinbert kerfi sem hefur tekið við stuðningi sem fjölskyldan veitti áður – þessir þættir hafa orðið til þess að mjög hallar undan fjölskyldunni – og afleiðingin er að milljónir manna upplifa sig utanveltu og ástlaus.
Fleiri þættir eru taldir hafa áhrif, eins og það að fólk sé hætt að hittast og eiga samverustundir – samskiptin hafi flust yfir á samfélagsmiðlana. Einnig hafi dregið úr aðild fólks að ýmissi félagsstarfsemi eins og íþróttaklúbbum og öðrum skipulögðum félagsskap þar sem fólk geti eignast vini til lengri tíma.
Bent hefur verið á að einangrun og einmanaleiki getur valdið alvarlegu þunglyndi, hrakandi heilastarfsemi og ótímabærum dauða. Áhrif einmanaleika á heilsuna eru alvarlegri en offita og reykingar. Sjálfsvíg, ofdrykkja og misnotkun á lyfjum (ópíóðafaraldurinn) séu m.a. afleiðingar vaxandi einmanaleika. Lífslíkur Bandaríkjamanna fari nú fallandi vegna þessa, en 22-23% meiri hætta er á ótímabærum dauða fólks sem er einmana.
Forfeður okkar höfðu þegar komið auga á erfiðleika þeirra sem eru einir eða einmana, en í Gestaþætti Konungsbókar Eddukvæða má finna eftirfarandi erindi. Þar segir að tré sem stendur eitt og skjóllaust á berangri, en ekki í þyrpingu og skjóli annarra trjáa, visni og deyi. Þannig fari líkt um mann sem á engan að.
Hrörnar þöll sú er stendr þorpi á(n),
hlýrat henni börkr né barr;
svá er maðr sá er manngi ann;
hvað skal hann lengi lifa?
Hvað er hægt að gera ef maður er einmana?
Ekki er það sama að vera einn og að vera einmana. Sumir eru einir án þess að vera einmana og aðrir geta upplifað sig einmana þó þeir séu með öðrum. Upplifi maður sig einmana, er gott að byrja á því að reyna að koma auga á hversvegna. Spyrja sig hvort ástandið sé tímabundið, t.d. vegna breytinga, hve lengi maður hafi haft þessa tilfinningu og hvort maður upplifi sig þunglyndan og framtakslausan.
Jafnvel þó að sumir telji samfélagsmiðla vera eina af orsökum einmanaleika, þá má einnig nota þá til að halda tengslum við fólk og hitta það, eða finna sér félagsskap við sitt hæfi og skipuleggja að hitta fólk. Að fá sér hund eða kött getur líka hjálpað. Jafnvel þó þau komi ekki í stað annarrar manneskju, þá veita þau félagsskap og gefa færi á að bera ábyrgð og sýna umhyggju. Hundar eru upplagðir til að fara með í daglegan labbitúr og hitta þannig annað fólk á förnum vegi.
Vinir og annað fólk kemur oftast ekki til manns af sjálfsdáðum. Maður verður að bera ábyrgð á því sjálfur að gefa kost á sér. Taka þátt í safnaðarstarfi eða gerast sjálfboðaliði. Bjóðast til að vinna fyrir hjálparsamtök, góðgerðamál og félagasamtök. Þannig má finna vini, tilgang og hjálpa við það öðrum og sjálfum sér í leiðinni. Fara á bókasöfn – þau bjóða stundum leshringi eða áhugaklúbba um leikhús eða kvikmyndir. Fara í kvöldskóla eða á námskeið – þar er líklegt að hitta fólk með svipuð áhugamál.
Sé maður orðinn djúpt sokkinn í einmanaleika og þunglyndi gæti verið kominn tími til að leita sér faglegrar aðstoðar. Þeir sem lentir eru á þeim stað eiga stundum erfitt með að átta sig á því sjálfir – því gæti verið mikilvægt að taka mark á því ef einhver sem vill vel, stingur upp á því við mann.
Til að eiga vini þarf að vera vinur
Að eiga vini og félagslíf er fyrirhafnarsamt – en það er gaman og gefur mikið til baka. Til dæmis væri hægt að bjóða kunningjum, samstarfsfélögum eða nágrönnum í mat, halda boð, skipuleggja ferðir eða viðburði. Vilji maður eiga vini og eignast þá, þarf að sýna frumkvæði, teygja sig eftir því sjálfur og sinna þeim vinum sem maður eignast, af alúð. Þar sem að ótrúlega margir aðrir upplifa sig einmana, er ekki ólíklegt að einhverjir muni taka útréttri vinarhönd fengins hendi.
Aukaheimild: Forbes: Millenials And The Loneliness Epidemic.