Pétur Gunnarsson blaðamaður lést í gærkvöldi á líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Hann var 58 ára að aldri og einn reyndasti blaðamaður þjóðarinnar og frumkvöðull í mörgu á sviði blaðamennsku. Banamein hans var krabbamein, sem hann hefur tekist á um nokkurt skeið af miklu æðruleysi.
Pétur átti margháttaða starfsreynslu að baki. Hann varð stúdent frá MR, en starfaði svo lengi sem lögreglumaður í Reykjavík uns hann sneri sér að blaðamennsku á Morgunblaðinu um langt skeið. Þar var hann í hópi fremstu blaðamanna og var fenginn til að vera fyrsti fréttastjóri Fréttablaðsins þegar það hóf göngu sína sem fríblað. Hann var líka ritstjóri Eyjunnar þegar hún hóf göngu sína á Netinu og vöktu pistlar hans og skoðanaskrif jafnan mikla athygli. Þá var hann um skeið fréttastjóri á Viðskiptablaðinu.
Engum blöðum var um það að frétta, að Pétur var um langt árabil álitinn einn af okkar albestu blaðamönnum.
Pétur tók um skeið nokkurn þátt í stjórnmálastarfi, bæði fyrir Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna og sinnti svo ýmsum ráðgjafarstörfum. Síðasta hluta starfsævi sinnar var hann starfsmaður og ritstjóri hjá SÁÁ.
Eiginkona Péturs er Anna Margrét Ólafsdóttir leikskólastjóri og eignuðust þau þrjú börn og fjölda barnabarna sem syrgja nú ástríkan föður og afa. Pétur var líka mjög náinn systkinum sínum og móður, útvarpsþulinum ástsæla, Ragnheiði Ástu Pétursdóttur.
Faðir hans var Gunnar Eyþórsson fv. fréttamaður og fósturfaðir Jón Múli Árnason útvarpsmaður og tónskáld.
Ritstjórn Viljans vill að leiðarlokum þakka Pétri fyrir vináttusamband um áratugaskeið og margháttað samstarf í stjórnmálum og blaðamennsku. Með honum er genginn einstaklega hæfur blaðamaður og skarpur samfélagsrýnir með ríka réttlætiskennd.
Blessuð sé minning Péturs Gunnarssonar.