Ekkert fæst uppgefið um dularfull skjálftaköst Þýskalandskanslara

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, slær nýjum tón í samskiptum við Bretland.

„Traust almennings á henni fer dvínandi“, að sögn álitsgjafa og fyrrum ritstjóra Handelsblatt í Þýskalandi, en Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur þrisvar sinnum á jafnmörgum vikum fengið áberandi skjálfta við opinberar athafnir, og hafa efasemdir kviknað um heilsu hennar. Financial Times fjallar um málið.

Síðast á miðvikudaginn, við móttöku á danska forsætisráðherranum Mette Fredriksen, varð vart við að kanslarinn skalf. Hún hefur áður sagst vera við hestaheilsu, en einkalíf og heilsa leiðtoga Þýskalands eru ógjarnan til umræðu. Þýskir embættismenn eru því þögulir sem gröfin um það hvað gæti verið að hrjá kanslarann þeirra, sem lætur ekki af embætti fyrr en árið 2021, og talskona hennar hefur gefið út að Merkel „hafi það gott.“

Heilsa kanslarans ekki einkamál

En álitsgjafar eru á öðru máli. „Heilsa kanslarans er ekki einkamál. Þjóðverjar eiga rétt á því að vita hvort leiðtogi þjóðarinnar sé í ástandi til að sinna embættisverkum fyrir hennar hönd af fullum styrk“, er haft eftir fyrrum yfirmanni leyniþjónustunnar. Hún hefur þó gefið í skyn að hún hafi leitað sér aðstoðar og ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur, hún geri sér fulla grein fyrir ábyrgðinni sem stöðunni fylgi og hún hagi sér samkvæmt því.

Leyndin yfir því hvað gæti verið að hrjá Merkel er þó talin grafa meira undan trausti á kanslaranum, heldur en ef hún stigi fram með skýringar á því hvað er um að vera. T.a.m. sé mun meira gagnsæi varðandi heilsu Bandaríkjaforseta, sem fara árlega í ítarlega læknisskoðun og gera niðurstöðuna kunna. Donald Trump var til dæmis rannsakaður af 11 læknum, sem gáfu út að forsetinn væri hraustur og útlit væri fyrir að hann yrði við góða heilsu út kjörtímabilið og framyfir það.

Leiðtogar þurfi að vera sterkir sem stál

Slíkt gagnsæi varðandi heilsu Þýskalandskanslara er óþekkt þarlendis. Fæstir vissu að ýmsir þeirra stríddu við ýmis erfið vandamál, eins og alvarleg þunglyndisköst Willy Brandt, tíð yfirlið Helmut Schmidt og blöðruhálskirtilsvandamál Helmut Kohl. Þróunin þykir þó vera í þá átt að heilsa leiðtoganna skipti æ meira máli varðandi traust og ímynd þeirra. Þeir þurfi að vera „sterkir sem stál“ til að ferðast og vera viðstaddir fundi á borð við G7, G20 og Evrópuráðsfundi – því sé eðlilegt að ætlast til þess að þeir haldi fílhraustir af stað á slíkar samkomur.

Aðspurð hvernig Merkel liði, nú þegar 65 ára afmæli hennar nálgast í næstu viku, á hún að hafa sagt: „ég er ekkert að yngjast, en er þeim mun reyndari. Fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott.“