Ekki mjög langt síðan jöklar mynduðust á Íslandi

Okið var að mestu bráðnað þann 1. ágúst sl. Skjáskot/NASA

Smájökullinn Ok á Kaldadalsleið er að mestu horfinn. Nokkrir snjóskaflar eru það eina sem eftir leifir af honum í sumar. Bandaríska geimvísindastofnunin (NASA) birti nýlega myndir og umfjöllun um hvarf jökulsins, og fjallað hefur verið um það í innlendum og erlendum fjölmiðlum undanfarna daga. Andri Snær Magnason, rithöfundur og f.v. forsetaframbjóðandi, ásamt vísindamönnum Rice-háskólans í Houston, hyggjast halda minningarathöfn og afhjúpa minnisvarða þar sem Okið lá áður nk. sunnudag. Frá því var greint 18. júlí sl. á vefsíðu háskólans.

Í því samhengi er fróðlegt að skoða vefsíðu Vatnajökulsþjóðgarðs um hörfandi jökla, en þar kemur fram að þeir jöklar sem eru á Íslandi í dag, séu ekki leifar ísaldarjökulsins, heldur hafi byrjað að myndast á kuldaskeiði sem hófst fyrir um 5.000 árum síðan. Þar segir m.a. að Vatnajökull hafi tekið á sig núverandi mynd þegar jöklar á fjallstindum í 1.200–2.000 m hæð runnu saman. Líkanreikningar gefa til kynna að þetta hafi gerst fyrir um 1.000–1.500 árum, eða stuttu fyrir landnám árið 874.

Vatnajökull ekki leifar ísaldarjökulsins

„Vatnajökull er ekki leifar ísaldarjökulsins sem huldi landið á hámarki síðasta jökulskeiðs fyrir um 18.000 árum. Setlagakjarnar úr Lagarfljóti varðveita samfellda 10.000 ára sögu bræðsluvatns frá jöklinum, en afrennsli Eyjabakkajökuls rennur í vatnið. Fyrir um 9.000 árum er ekki að finna nein merki um jökulættað set og á hlýjasta tímabili Nútíma (fyrir um 5.000–8.000 árum) er talið að ísaldarjökullinn hafi nánast horfið af landinu og þá hafa líklega aðeins verið jöklar á hæstu tindum. Jökulvatn fór að berast í vatnið aftur fyrir um 4.500 árum. Það er í samræmi við önnur gögn frá Íslandi sem sýna að veðurfar fór kólnandi fyrir um 5.000 árum og jöklar tóku að myndast og stækka á hálendinu. Um 2.000 ára gamlir trjádrumbar hafa fundist framan við Fláajökul og Skaftafellsjökul, sem gefa til kynna að dalir þessara jökla hafi verið íslausir fram að þeim tíma,“ segir á vefsíðu þjóðgarðsins.