„Eldvirkni á Reykjanesi er lotubundin og talin geta staðið yfir í allt að 400 ár þegar hún byrjar“, segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands, í svari við fyrirspurn Viljans, vegna jarðhræringa á Reykjanesinu undanfarið.
„Eldvirkni er fyrst og fremst stjórnað af gliðnunar sprungum er liggja NA-SV þvert yfir skagann. Talið er að aðeins eitt kerfi geti verið virkt í einu. Síðasta hrina er gekk yfir Reykjanesskagann, hófst í austri fyrir rúmum 1000 árum, Brennisteins-Bláfjalla kerfið. Hraun frá þeim tíma má finna í Heiðmörk og á völlunum í Hafnarfirði.
Hvert eldstöðvar kerfið tók svo við af öðru, vestur eftir skaganum. Krísuvíkur kerfið var virkt á 12. öld og svo loks Reykjanes-Eldvörp-Svartsengi á 13. öld. Þegar kerfin fara í gang verða mörg eldgos á nokkrum árum til áratugum. Þannig er talið að frá landnámi, hafi orðið um 12-13 eldgos á Reykjanesskaga. Eldstöðvarkerfið Reykjanes-Eldvörp-Svartsengi er eina kerfið sem teygir sig út í sjó og því eina kerfið sem getur leitt til umtalsverðra gjóskugosa.
Eitt slíkt átti sér stað árið 1226 er yngra stampahraunið og gjóskustandurinn Karlinn mynduðust. Hinsvegar er algengasta myndun eldgosa á svæðinu hraungos um sprungur, og einkennist Reykjanesið af eldbruna frá fjöru til fjalla. Mun sjaldgæfari eldgos eru dyngjugos, en þrátt fyrir það er Reykjanesið að mestu byggt upp af þremur dyngjum, Sandfellshæð, Þráinsskildi og Hrútagjá.
Í sprungugosum kemur kvikan upp um gliðnunarsprungur og geta orðið rúmlega 10 km langar, algengast er þó að þær séu styttri. Kraftur í eldgosinu getur verið mikill í byrjun en fljótt dregur úr þeim, því geta hraun frá sprungugosum breiðst hratt út í byrjun, en hægja á sér því lengra sem líður á eldgosið og hraunin renna lengra frá upptökum.
Ætla má að sprungugos á Reykjanesskaga vari frá nokkrum dögum til vikna. Í dyngjugosum má hinsvegar gera ráð fyrir langvarandi eldgosi, en að sama skapi kemur kvikan þá hægt upp, og breiðist hægt yfir landið. Mannvirkjum stendur helst ógn af hraungosum, þar sem erfitt er að færa þau úr stað. Hinsvegar geta skapast óþægindi af eldfjallagosum sem hafa mun meiri útbreiðslu en hraunin.“