Elliða finnst orðið „afneitunarsinni“ hrokafullt og ljótt

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

„ Mér finnst orðið „afneitunarsinni“ ljótt og notkun þess lítt líkleg til uppbyggjandi umræðu um loftlagsbreytingar,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss á vefsíðu sinni Ellidi.is í dag.

Hann segir orðið vera fullt af hroka og beri með sér trúarlega afstöðu frekar en rökhyggju – og óskar eftir betra orði til að lýsa efasemdum um boðaðar hamfarir í loftslagsmálum.

„Ég man lítið eftir notkun þess þar til nýlega“ segir Elliði.  „Þegar því er til dæmis slegið inni í leitarvélina „timarit.is“ þá koma upp tvær færslur.  Sú fyrri frá 1994 þegar það var notað í tímariti Máls- og menningar í tengslum við umræðu um ofsóknir gegn Gyðingum (þeir sem vilja endurskoða- eða afneita þeirri staðreynd að Gyðingar urðu fyrir ofsóknum).  Í seinni færslunni í „Degi“ er það haft í umfjöllun um leikritið „Jónas týnir jólunum“, en Jónas þessi afneitaði því sem sagt að jólin væru til.“

„Þeir sem afneita trúnni eru trúvillingar, afneitunarsinnar“

„Orðið „afneitunarsinni“ í tengslum við jafn mikilvægt efni og loftlagsmál þykir mér hrokafullt,“ segir Elliði jafnframt.  

„Þeir sem nota það telja sig hafa umvafið sannleikann svo fast að ekkert svigrúm sé til annarrar skoðunar.  Að þeir sem vilja nálgast málið á öðrum forsendum (svo sem með öðrum gögnum) séu á sama stað og þeir sem afneita tilvist jólanna eða helfararinnar.  Þeir sem þannig tala líkjast gjarnan trúboðum.  Þeir sem afneita trúnni eru trúvillingar, afneitunarsinnar.“

„Umræða um loftlagsmál eru í mínum huga stærsta hagsmunamál mannkynsins í dag.  Það kemur bara þrennt til greina.  Í fyrsta lagi getur verið að áhrif mannanna séu jafn veruleg og dægurumræðan bendir til.  Þá er þörf fyrir þær aðgerðir sem við sjáum víða. Í öðru lagi getur verið að áhrif mannanna sé umtalsvert minni en dægurmálaumræðan bendir til.  Þá er verið að sóa ofboðslegum verðmætum í baráttunni.  Verðmætum sem hægt væri að nýta til annarra þarfra samfélagslegra verkefna.  Í þriðja lagi getur verið að sannleikurinn liggi þarna á milli.  Munurinn á þessu og afstöðu til trúmála er sá að það er einhver mælanlegur ytri veruleiki í loftlagsmálum.  Sumt er rétt og annað er rangt.  Rök og gögn sem ýmist eru með eða á móti eiga því við. Umræðan er því þörf.“