Endurtekið coup d’état beggja vegna Atlantshafsins

Boris Johnson, forsætisráðherra.

Það er áhugaverð samhverfa á milli áformanna um að stöðva BREXIT, og endurtekinna tilrauna til að hafa að engu niðurstöðu frjálsra kosninga í Bandaríkjunum. Deila má um það, hvort svipaðar eða mismunandi útgáfur af „djúpríkinu“ standi fyrir þessu, beggja vegna Atlantshafsins. Endurteknar valdaránstilraunir (f. coup d’état) gagnvart Bandaríkjaforseta og forsætisráherra Bretlands eru um margt líkar. Ekki síst einarður ásetningurinn um að ganga þvert á skýran vilja kjósenda í báðum ríkjunum.

Svona hefst grein eftir Andrew Ash, sem birt er hjá hægrisinnuðu bandarísku hugveitunni The Gatestone Institute í vikunni, en stofnunin er sjálfstæð stofnun um mannréttindi og lýðræði. Eftirfarandi er lausleg þýðing og stutt samantekt.

Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna.

Árið 2016 var ár hinna óvæntu kosninga – tvisvar. Andstætt öllum spám – og þvert á óskir hlutdrægra meginstraums fjölmiðla – kusu Bretar að yfirgefa Evrópusambandið, og Donald J. Trump var kjörinn 45. forseti Bandaríkjanna. Báðir þessir atburðir komu „valdastéttinni“, sem mætti þeim með hryllingi, í opna skjöldu. Niðurstöðurnar hafa æ síðan mátt þola endurteknar ógeðfelldar og ólýðræðislegar árásir, í þeim tilgangi að fá þeim breytt, hvað sem það kostar.

Endurteknar tilraunir til að snúa lýðræðislegri niðurstöðu

Líkindin eru umtalsverð. Þetta er í fyrsta skipti sem lýðræðislegt kjör forseta Bandaríkjanna, og niðurstaða löglegrar þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi, þurfa að þola endurteknar og samstilltar tilraunir til að fá þeim viðsnúið. Hvort tilfelli um sig minnir helst á valdaránstilraunir í einræðisríkjum þriðja heimsins.

Góðu fréttirnar eru þær, að það er allskostar ólíklegt að önnur hvor tilraunin heppnist. Meðölin sem andstæðingarnir beita, munu að lokum verða þeim að falli. Kannski er almenningur – sá bandaríski eða sá breski – í raun ekki eins treggáfaður og kerfið vonar að hann sé – eða gefur sér, með hroka, að hann sé.

Í hvert sinn sem steinar eru lagðar í götu vilja kjósenda, hvort sem það er með móðursýkislegum ásökunum um „leynilegt samstarf með Rússum“ eða – enn ósönnuðum – „þvingunum í Úkraínu“ gegn Donald Trump, eða örvæntingarfullum tilraunum til að saka Boris Johnson um annarlegar hvatir við að leysa upp breska þingið, verður almenningur tortryggnari gagnvart hinum vafasömu uppátækjum og plottum sem eru í gangi. Almenningur sér með eigin augum hvað er um að vera. Þegar valdastéttin fær ekki sínu framgengt, og gengur gegn vilja kjósenda, er upplausn framundan. Hver vill svona lýðræði?

Nýtt að þurfa að berjast fyrir völdunum eftir kosningar

„Hversvegna er þetta [BREXIT] mikilvægt fyrir okkur Bandaríkjamenn,“ spurði Donald Trump yngri í grein sem hann birti í breska blaðinu The Telegraph í vor, og svaraði spurningunni sjálfur: 

„Vegna þessa að BREXIT er dæmi um það hvernig elítan reynir að vanvirða vilja kjósenda hvenær sem færi gefst. Þegar faðir minn sigraði valdastéttina í Washington, í sögulegum forsetakosningum árið 2016, aðeins nokkrum mánuðum eftir niðurstöðuna í BREXIT, þá ályktuðum við ranglega að völdin myndu færast á friðsaman hátt frá Demókrötum og yfir til Repúblikana, alveg eins og alltaf hefur verið.“

Donald Trump yngri.

Eins töldu kjósendur í Bretlandi að útgangan úr Evrópusambandinu yrði með vinsemd og virðingu – tímanleg brottför úr klóm hins ógagnsæja og óábyrga Evrópusambands.

Því miður reyndist það vera bjartsýni. „Í staðinn“ hélt Trump yngri áfram, „hafa Demókratar og fulltrúar djúpríkisins í réttarkerfinu, unnið að því leynt og ljóst, að hindra vilja bandarískra kjósenda. Embættismenn á æðstu stöðum hafa jafnvel rætt hvernig þeir geta rutt forsetanum úr embætti með því að nota 25. ákvæði stjórnarskrárinnar.“

Óhugnanleg plön og pólitískt brall – Hvað næst?

Lýsingin á áætlunum um að velta Trump úr forsetastólnum, endurspeglar hið óhugnanlega pólitíska brall sem hefur átt sér stað frá því að kosið var um BREXIT, fyrir þremur árum. Tveir forsætisráðherrar eru fallnir – og ekki er útséð um þann þriðja – vegna hverrar atlögunnar á fætur annarri. Afsakanirnar fyrir töfum á framkvæmd BREXIT verða æ fáránlegri. Allt frá því að saka BREXIT kosningabaráttuna um að hafa platað kjósendur – til þess að ásaka forsætisráðherrann um að hafa logið að drottningunni um ástæður sínar fyrir að leysa upp þingið. Maður er farinn að spyrja sig upp á hverju verður tekið næst.

Bandaríkjaforseti og breski forsætisráðherrann, standa vígamóðir en þó enn uppréttir, við að reyna að framfylgja vilja meirihluta kjósenda.