„Engin vandamál og allt í góðu lagi,“ sagði í frægri og afar langri sjónvarpsauglýsingu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir nokkrum árum, sem var snarlega tekin úr birtingu eftir gagnrýni á himinháan kostnað og sjálfshól sem í henni fólst. Þessi setning kemur upp í hugann þegar rýnt er í niðurstöður úttektar Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á vinnustaðamenningu innan Orkuveitunnar og dótturfélaga hennar sem kynnt var í dag.
Þar kemur meðal annars fram að vinnustaðarmenning hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjum er betri en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði. Þá kemur fram að uppsagnir þeirra Áslaugar Thelmu Einarsdóttur og Bjarna Más Júlíussonar hjá Orku náttúrunnar (ON) séu taldar réttmætar. Ábendingar um framkvæmd uppsagnanna eru í úttektinni og hvatt er til að skerpt verði á verkferlum.
„Það er mikilvægt að nú liggur fyrir óháð og ítarleg skoðun á þeim atburðum sem urðu að brennidepli opinberrar umræðu nú í haust,“ segir Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.
„Í ljósi þess hvernig umræðan þróaðist þá var mikilvægt að skoða hvort brotið hafði verið á fólki eða hvort að ásakanir um óheilbrigða vinnustaðamenningu ættu við rök að styðjast. Niðurstöðurnar staðfesta að svo er ekki. Við tökum ábendingarnar í skýrslunni alvarlega og munum vinna skipulega úr þeim. Áreitni og einelti eiga ekki að líðast,“ segir hún.
Helga Jónsdóttir, forstjóri Orkuveitunnar, sagði á blaðamannafundi í dag að niðurstaða úttektarinnar sýni að jafnvel í þessu góða fyrirtæki sé hægt að gera betur.
„Síðar í vikunni munum við hittast öll sem störfum hjá Orkuveitusamstæðunni og fara yfir úttektina í sameiningu,“ segir hún.