„Stjórnlagaráð var þjóðkjörið. Þar hljómuðu því margvíslegar raddir samfélags okkar á Íslandi og drög voru gerð að nýrri stjórnarskrá með samþykki allra meðlima Stjórnlagaráðsins. Auk þess kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslu yfirgnæfandi vilji meirihluta íslenskra kjósenda til þess að nýja stjórnarskráin ölaðist gildi. Enn sem komið er hefur Alþingi ekki auðnast að koma til móts við þann vilja.“
Svo ritar frú Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands, í formála bókar sem Stjórnarskrárfélagið gaf nú á dögunum, en hún heitir Nýja íslenska stjórnarskráin. Þar er að finna frumvarp Stjórnlagaráðs í heild sinni ásamt formála frú Vigdísar og sögulegum inngangi eftir Þorvald Gylfason.
Í dag, á síðasta þingfundardegi fyrir jólahlé, ákváðu þingmenn Pírata og Samfylkingarinnar að senda alla þingmenn og ráðherra heim í jólafrí með eintak af bókinni. Þingflokkarnir telja mikilvægt að þingheimur beri virðingu fyrir skýrum vilja þjóðarinnar sem kom fram í þjóðaratkvæðargreiðslu í október 2012.
Hjörtur Hjartarson, fulltrúi Stjórnarskrárfélagsins, kom færandi hendi á Alþingi í morgun og aðstoðaði við dreifingu bókarinnar í pósthólf þingmanna.
Forsætisráðherra skipaði fyrr á árinu starfshóp um endurskoðun stjórnarskrárinnar þar sem formenn og talsmenn allra flokka eiga sæti. Er það eindregin von Pírata og Samfylkingar að sú vinna skili þjóðinni nýrri stjórnarskrá sem verði Íslendingum öllum til sóma í framtíðinni. Vinna Stjórnlagaráðs og vilji þjóðarinnar er mikilvægur grundvöllur þeirrar vinnu.
![](https://viljinn.is/wp-content/uploads/2018/12/stjornarskrarfelag.jpg)