Enn berast fregnir af framkvæmdum hjá Reykjavíkurborg sem sigla duglega fram úr kostnaðaráætlunum. Nýjasta dæmi er nýr innsiglingarviti við Sæbraut sem stefnir í fyrsta lagi að verða tilbúinn ári á eftir áætlun og í öðru lagi er útlit fyrir að kostnaðurinn tvöfaldist miðað við upphaflegar áætlanir.
Þetta vekur upp spurningar hvort eitthvað er að marka kostnaðaráætlanir sem lagðar eru áður en ákvörðun er tekin um framkvæmdir. Mörg mál hafa komið upp að undanförnu þar sem kostnaður er langt umfram áætlanir og verklok sömuleiðis.
Embættismenn, sérfræðingar og stjórnmálamenn, sem Viljinn hefur rætt við, segjast hafa á tilfinningunni að lagðar séu fram hóflegar kostnaðaráætlanir til að fá mál samþykkt, þótt vitað sé strax í upphafi að þær muni ekki standast.
Frá árinu 1945 hafði vitinn í turni Sjómannaskólans þjónað hlutverki sínu sem innsiglingarviti í Reykjavíkurhöfn en nýbyggingar í Borgartúni hafa skyggt á hann í seinni tíð. Þess vegna var ákveðið að byggja nýjan vita og búa um leið til kennileiti sem gæti orðið mikilvægur þáttur í ferðamennsku í borginni.
Í upphaflegum kostnaðaráætlunum átti gerð vitans að kosta 75 milljónir. Í borgarráði í dag var tekin fyrir fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, um málið og svör við henni, en þar kemur m.a. fram að mistök hafi verið gerð í upphaflegri áætlun. Kostnaðurinn þá hafi átt að vera 100 milljónir króna.
Í skriflegu svari skrifstofustjóra framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg segir nú að áætlaður heildarkostnaður verkefnisins sé 150 milljónir króna. Tilboð í verkið hafi verið dýrara en gert var ráð fyrir og kostnaður við landfyllingu, grjótvarnir og fleira hafi verið vanáætlaður.
Málið verður aftur tekið til umræðu í borgarráði í næstu viku, þar sem meirihluti ráðsins ákvað að fresta því þrátt fyrir mótmæli Vigdísar.