Er niðursveiflan hafin? Hagvöxtur fer hratt minnkandi

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar mældist hagvöxtur 2,6% á þriðja ársfjórðungi borið saman við mun kröftugri hagvöxt á fyrstu tveimur ársfjórðungum. Þannig mældist 6,7% hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi og 5,9% hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi. Alls mældist 6,3% hagvöxtur á fyrri árshelmingi og 5% á fyrstu þremur fjórðungum ársins. 

Um þetta er fjallað í greiningu Hagdeildar Landsbankans í dag. Þar segir að hagvaxtartölurnar nú á þriðja ársfjórðungi komi í sjálfu sér ekki á óvart.

Samkvæmt upplýsingum Viljans hefur töluvert hægt á fasteignamarkaði upp á síðkastið og eignir eru mun lengur en áður að seljast. Jafnframt finna bílaumboðin fyrir því að kaupendur stígi varlegar til jarðar en áður.

Tvennt er talið skýra þetta einkum. Annars vegar óvissa á vinnumarkaði og möguleikar á verkföllum og alvarlegum vinnudeilum eftir áramót og hins vegar gengislækkun krónunnar og væntingar um að verðbólgudraugurinn sé mættur til leiks með tilheyrandi áhrifum á lífkjör almennings.

„Flestir spáaðilar hafa verið að gera ráð fyrir að hagvöxtur yrði töluvert minni yfir árið í heild en hann var á fyrri hluta ársins,“ segir hagdeild Landsbankans.

Við í krónuhagkerfinu og hinir sem fara inn og út

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, fjallar um stöðuna hér á landi í efnahagsmálum í nýjasta tölublaði Vísbendingar. Hann segir að skipta megi þjóðinni í tvennt, þá sem geti farið inn út úr gjaldmiðlinum okkar og þá sem það geti ekki.

Gylfi Zoega prófessor. Hann situr í Peningastefnunefnd Seðlabankans.

„Í krónu­hag­kerfi þar sem fjár­magns­flutn­ingar á milli landa eru leyfðir er aðstöðu­munur á milli launa­fólks og fjár­magns­eig­enda. Dæmi­gerður launa­maður á fast­eign, skuldar fast­eigna­lán og safnar rétt­indum í líf­eyr­is­sjóði. Ef hann nú býst við því að gengi krón­unnar lækki þá áttar hann sig fljótt á að hann er fastur í krónu­hag­kerf­inu og getur fátt gert til þess að verja sig. Fjár­magns­eig­andi er í allt öðrum spor­um. Hann getur milli­fært pen­inga­legar eignir sínar á milli krón­unnar og ann­arra gjald­miðla. Þegar hann býst við að krónan falli þá kaupir hann gjald­eyri og þegar hann býst við því að hún hafi náð botni þá kemur hann aftur inn í krón­una og hagn­ast á geng­is­styrk­ingu henn­ar. Hann getur jafn­vel haft pen­inga­legar eignir sínar í erlendum böndum eða skatta­skjól­um,“ segir hann.

Hann segir þetta þýða að forsendur hef­bund­innar stétta­bar­áttu séu ekki fyrir hendi hér á landi. „Þjóðin skipt­ist ekki upp í fjár­magns­eig­endur sem arð­ræna launa­fólk í Marxískum skiln­ingi heldur skipt­ist þjóðin í tvo hópa, þá sem geta komið sér út úr krón­unni á réttum tíma og hina sem eru fast­ir.  Þetta hljómar ekki rétt­látt en svona er það samt,“ segir hann.