Er nú bannað að tala um veðrið?

Erna Ýr Öldudóttir.

Átakalínur hafa nú myndast um loftslagsmálin, en um langa hríð hefur ekki mátt gagnrýna eða efast um að loftslagið sé að breytast af mannavöldum. Sumir vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að veðurfarið sé að breytast af mannavöldum eingöngu, nokkrir telja að það geti verið að breytast að hluta til vegna mannanna, enn aðrir eru ekki vissir og fjórði hópurinn telur að svo sé ekki. Mögulega breytist þó veðurfarið stöðugt af ýmsum flóknum náttúrulegum orsökum sem enn eru eru ekki þekktar til hlítar – eins og það hefur reyndar alltaf gert.

Af einhverjum furðulegum ástæðum hafa hópar aktívista, fjölmiðlar, stjórnmálamenn og jafnvel kennivaldið, hlaupið af stað með þær grillur í höfðinu, að hinir fyrstnefndu vísindamenn séu handhafar hins eina og endanlega sannleika í málinu. Þeir sem efast eða spyrja gagnrýnna spurninga eru álitnir guðlastarar og „hættulegir“, sbr. ummæli Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings, í samtali við Stundina. Þeir fá undireins á sig hinn ógeðfellda stimpil „afneitunarsinnar“, sbr. þáttaröð Ríkisútvarpsins Loftslagsþerapían o.fl.

Gagnrýnin hugsun og rökræða á undanhaldi

Þannig verða hugrenningatengslin svipuð og um fólk sem afneitar því að Helförin hafi átt sér stað – af því að auðvitað hljóta þeir sem efast í loftslagsmálunum að vera heimskir og alveg hryllilega vont fólk, sem þarf að merkja vandlega og jaðarsetja út úr umræðunni. Flestir sem hneykslast og fussa og sveia við „afneitunarsinnunum“, tilheyra þó menntastéttinni, sem hefur eytt árum, og jafnvel áratugum, inni á stofnunum sem hafa það eina hlutverk að kenna þeim gagnrýna hugsun, og það að efast.

Fjöldi vísindamanna sem reiða sig á opinbera styrki, og styrki frá þeim sem ætla að græða á grænu gróðamaskínunni, þora ekki að opna munninn, vegna þess að þeir sem hafa efast opinberlega eða komist að annarri niðurstöðu, missa rannsóknarstyrki, vinnuna (þ. Berufsverbot) og æruna. Svo rammt kveður að þessum ófögnuði, að jafnvel forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, sem hefur þó verið ein helsta klappstýra aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálunum, gerði það að umtalsefni í ræðu sinni á Norðurlandaráðsþingi á dögunum. Hún sagði m.a. skv. frétt Kjarnans:

Eðli lýðræðisins að andstæð sjónarmið fái að takast á

„Á sama tíma hefðu þeir sem afneita lofts­lags­breyt­ingum líka fengið meira rými í umræð­unni. Slíkt væri eðli lýð­ræð­is­ins – and­stæð sjón­ar­mið tækjust á. Það lægi enn meiri ábyrgð á herðar þeirra stjórn­mála­manna sem vildu fylgja vís­indum og byggja ákvarð­anir á rann­sóknum og gögn­um. Þó að þar ljósti oft saman ólíkum skoð­unum þá fengjust bestu nið­ur­stöð­urnar með lýð­ræð­is­legum hætti „vegna þess að það er besta stjórn­ar­form sem við eig­um.““

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.

Þarna virðist forsætisráðherrann vera að undirstrika, að jafnvel þó að henni finnist mikilvægt að baráttumál hennar fái framgang, þá sé frjálst lýðræðislegt þjóðfélag, þar sem opin umræða fær að eiga sér stað, mikilvægari. Vonum að skynsamleg ummæli ráðherrans nái að skila sér út í alrýmið, af því að undirrituð og aðrir sem efast, höfum ekki átt sjö dagana sæla í tilraunum við að koma athugasemdum á framfæri við mærðarlegan já-kórinn, sem stjórnar loftslagsumræðunni með alræðistilburðum. Það getur undirrituð fullyrt eftir að hafa orðið vitni að hótunum og skömmum í garð fjölmiðla sem leyfa fjölbreyttum sjónarmiðum í loftslagsmálum að koma fram, og samfélagsmiðlum sem hafa eytt út upplýsingum sem falla ekki að rétttrúnaði loftslagsmálanna.

Afleiðingarnar láta ekki á sér standa

Efnahagshlið aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum, og möguleg áhrif þeirra á almenning, hefur ekki fengið verðskuldaða athygli, gagnrýni eða umræðu í meginstraumnum. Kannski vegna þess að þeir sem leyfa sér að koma með aðfinnslur eða efasemdir, eru umsvifalaust þaggaðir, úthrópaðir og niðurlægðir. Afleiðingin er ískyggileg, og birtist m.a. í því, að kjósendur eru farnir að velja jaðarflokka yst til hægri og gamaldags stóriðjusósíalista, sbr. kosningar í Þýskalandi – en þýskur almenningur og iðnaðurinn á nú í erfiðleikum vegna grænna skatta og Orkuskiptanna (þ. Die Energiewende).

Hinsvegar eru þeir hlaupnir út á götur í uppreisn og tryllingslegum mótmælum, sbr. Gulu vestin í Frakklandi og víðar, eða óeirðirnar í Chile, sem upphófust við það að lestarfargjöldin þarlendis hækkuðu þegar skipt var yfir í fokdýra græna orku fyrir lestarkerfið. Miklar hækkanir urðu á eldsneyti og orkuverði áður, vegna þess að stjórnvöld í Chile vildu verða „brautryðjendur“ í álagningu kolefnisskatta. Stjórnvöld þora ekki annað en að hætta snarlega við loftslagsráðstefnu fína fólksins sem halda átti þar í desember nk.

Langþreyttur almenningur, sem á möglunarlaust að fóðra vasa elítunnar og fjármálamarkaðanna, auk þess að skera niður þegar hógværan lífsstíl sinn – fyrir óljósan og augljóslega ósannaðan ávinning – sér í gegnum þetta bix. Það gerir fólk auðveldlega, þó svo að sjálfskipaðir handhafar sannleikans vilji kúga hann til hlýðni. Þetta er hugsanlega farið að renna upp fyrir forsætisráðherra okkar Íslendinga, því vei þeim stjórnmálamönnum sem ætla sér að hunsa kjósendur, eða kalla þá „aumkunarverða (e. deplorables)“ og annað í þeim dúr.

Erna er blaðamaður á Viljanum.