Er önnur bylgja hafin hér á landi? Gætum þurft að taka einhver skref til baka

Þrjú innanlandssmit af kórónaveirunni sem veldur COVID-19 greindust í gær og tvö við landamærin. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Almannavörnum. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir ekkert liggja fyrir á þessum tímapunkti til að fullyrða að önnur bylgja veirufaraldursins sé skollin á landinu. Það komi í ljós í dag og á morgun; annars vegar þegar búið sé að raðgreina veiruna hjá þeim sem greindust í gær og kanna með óyggjandi hætti hvort smitin sé óháð hvert öðru og eins hvort fleiri muni greinast, en þegar hafa borist fregnir af fólk með einkenni sem sent hefur verið í sýnatöku.

„Í tengslum við smit sem uppgötvaðist á íþróttamóti ReyCUP í gær hefur einn verið sendur í einangrun og sextán aðrir, sem voru í nánu samneyti við hann, í 14 daga sóttkví. Einstaklingurinn tók þátt í félagsstarfi íþróttafélags í Reykjavík og er einungis hluti íþróttaliðsins sem sem tók þátt á mótinu í sóttkví. Aðrir tengjast einstaklingnum öðrum böndum. Uppruni smitsins er ófundinn og smitrakning enn í gangi,“ segir í tilkynningu Almannavarna.

Íþróttafélagið og mótshaldari hafa farið eftir þeim leiðbeiningum og reglum sóttvarnalæknis og almannavarna sem eru í gildi og hafa viðeigandi ráðstafanir verið gerðar.

Annað smit sem greindist í gær tengist smiti sem greint var frá í fyrradag. Íslensk erfðagreining hefur raðgreint smitin og kom í ljós ný tegund veiru sem hefur ekki greinst hér áður. Í því máli er smitrakningu lokið. Einn er í einangrun og 12 í sóttkví. Þriðja smitið sem greindist er frá einstaklingi sem kom til landsins þann 15. júlí. Það greindist á suðvesturhorni landsins. Hann er kominn í einangrun og sex sem voru í samneyti við hann í sóttkví. Þeir fara jafnframt í sýnatöku en tveir eru farnir að sýna einkenni veirunnar.

Að þessu viðbættu greindust tvö smit við landamærin, beðið er eftir niðurstöðu frekari rannsókna á því hvort um virk eða gömul smit sé að ræða.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis brýna fyrir fólki að gæta varúðar og huga vel að einstaklingsbundnum smitvörnum. Leiki minnsti vafi á hvort einkenni Covid-19 veirunnar séu til staðar er sá hinn sami beðinn um að fara í sýnatöku á næstu heilsugæslustöð.

Viljinn bar þessi tíðindi undir Kára Stefánsson, en vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa undir hans stjórn tekið tuga þúsunda sýna undanfarna mánuði og raðgreint öll staðfest tilfelli. Hann segir að þetta séu ekki góð tíðindi, en nú þurfi að kanna málið betur. Vel geti verið að nú þurfi að stíga einhver skref til baka í sóttvarnaskyni, enda mikilvægt að hamla frekari útbreiðslu faraldursins hér á landi. Hvort ástæða er til þess, ætti að liggja fyrir í kvöld eða á morgun.