„Á Íslandi fórnaði „litli sómamaðurinn“ sér í þetta. Hann sagði sjálfur að af þessum sex, sem töluðu svo hátt við borð, hefði hann aðeins þekkt einn í sjón, Sigmund Davíð. Hann ákvað þó að taka upp fjögurra klukkutíma spjall þingmannsins við, þess vegna fimm almenna borgara, sem hann hafði ekki hugmynd um hverjir væru! Er það virkilega? Er það þess vegna sem hann vill ekki láta nafngreina sig?“
Þetta skrifar Davíð Odsson, ritstjóri Morgunblaðsins, í Reykjavíkurbréfi dagsins um hið fræga samsæti sexmenninganna úr Miðflokki og Fólki fólksins á Klausturbar, sem svo mjög hefur komið til umræðu síðustu daga.
„Bréfritari hefur ekki sökkt sér niður í þessar frásagnir en það sem hæst hefur farið er einkar lágkúrulegt og lækkar mjög risið á þeim sem þar fóru með. Hitt er annað mál að þar sem menn koma saman á veitingastað við borð, jafnvel hvítþvegnir englar, bindindismenn og vegan sem hinir, þá er ekki þar með sagt að þeir þurfi að sæta því að samtöl þeirra séu hljóðrituð og birt, af því að þetta séu „opinberir staðir“.
Slíkir menn gætu hávaðalaust fjallað þar um fjarstadda menn og þá ekki komist hjá því að nefna atriði sem væri mjög óheppilegt og jafnvel skaðlegt fyrir alla, einnig viðkomandi, ef birt yrði opinberlega. Og lágkúruleg meiðandi ummæli breyta ekki endilega öllu í þeim efnum, þótt vonlegt sé að mörgum þyki blaðrararnir sem lægst lögðust eiga afhjúpunina skilið. Má þá ekki eins hlera skrifstofur sem ríkið leggur til og kostar ef grunur leikur á að þar kunni að heyrast meiðandi ummæli um einhvern?“
Davíð rifjar upp störf sín sem þingfréttaritari Morgunblaðsins fyrr á tíð og þá hafi þingmenn jafnan skotist út á Hótel Borg til að fá sér einn gráan eða tvo. Ekki hafi verið um aðra slíka staði að ræða.
„En af tilefni þessara ólánlegu frétta af barnum í Klaustrinu rifjaðist upp að breskur þingmaður í heimsókn hér upplýsti að í breska þinginu væru 23 barir. Sumir þeirra væru fyrir neðri deildina og aðrir fyrir lávarðadeildina og væru flestir þeirra opnir þeim blaðamönnum sem skráðir væru og samþykktir sem þingfréttaritarar,“ segir hann.