Eru rúmensk stjórnvöld hæf til að taka við forsæti í ESB á morgun?

Klaus Iohannis, forseti Rúmeníu.

Klaus Iohannis, forseti Rúmeníu, viðurkenndi fyrir nokkrum vikum að stjórn lands síns væri ekki hæf til að taka að sér pólitískt forsæti í ráðherraráði ESB fyrstu sex mánuði ársins 2019. Embættismenn ESB telja að rúmensk stjórnvöld hafi ekki snúist skipulega gegn spillingu og ekki tekist að treysta sjálfstæði dómstóla.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði laugardaginn 29. desember að hann efaðist um að ríkisstjórn Rúmeníu skildi til fulls hvað fælist í því að halda utan um stjórnartauma leiðtoga- og ráðherraráðs ESB í sex mánuði.

Rætt er við Juncker í blaðinu Welt am Sonntag. Þar segir hann að tæknilega kunni Rúmenar að vera vel búnir undir þetta hlutverk en svo virðist sem stjórnmálamenn í Búkarest átti sig ekki hvað bíði þeirra. Þeir verði að vilja hlusta á aðra og gæta þess að leggja eigin hagsmuni til hliðar. Hann efist um að þetta hugarfar ráði hjá Rúmenum.

Austurríkismenn láta af forystu sinni innan ESB á morgun, 1. janúar 2019 og Rúmenar koma í þeirra stað.

Réttarríkið á undir högg að sækja

Framkvæmdastjórn ESB birti skýrslu í nóvember 2018 þar sem segir að réttarríkið eigi undir högg að sækja í Rúmeníu og víða megi sjá merki um spillingu.

Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði þá að þróunin undanfarna 12 mánuði hefði gengið gegn því sem gert hefði verið til að bæta stjórnarhætti landsins undanfarin 10 ár.

Juncker segir að hörð pólitísk átök í Rúmeníu og skortur á stöðugleika vegna þeirra verði ekki til þess að stuðla að einingu innan Evrópusambandsins í stjórnartíð Rúmena.

Þegar ESB-skýrslan um Rúmeníu birtist viðurkenndi Klaus Iohannis forseti að það væri rétt sem þar segði um að ástandið í Rúmeníu nú líktist því sem var áður en landið varð aðili að ESB árið 2007.

Frá því að Jafnaðarmannaflokkur Rúmeníu (PSD) komst til valda í samsteypustjórn árið 2016 hefur hann barist fyrir setningu laga í því skyni að unnt verði að náða Liviu Dragnea, leiðtoga flokksins, og aðra flokksfélaga hans vegna spillingardóma. Dragnea er meðals annars sakfelldur fyrir að draga til sín fé úr styrktarsjóðum ESB.

Frá því að Rúmenía varð aðildarríki ESB árið 2007 hefur árlega birst skýrsla um framkvæmd laga og réttar í landinu. Vegna þess sem segir í nýjustu skýrslunni hefur enn einu sinni verið ákveðið að halda Rúmeníu utan Schengen-svæðisins.

Af vardberg.is, birt með leyfi.