Athygli hefur vakið, að Kristrún Heimisdóttir fagni þeirri niðurstöðu, að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Landsréttarmálinu, skuli hafa verið samþykktur til endurskoðunar í yfirdeild MDE, eins og fram kom í fréttum í gær. Hún hafði þetta um málið að segja á facebook:
„Fagna þessu mjög því mér fannst MDE dómurinn ganga of langt og vera hvorki gott skref í starfi þessa mikilvæga alþjóðadómstóls né ásættanlegur fyrir Ísland sem aðildarríki. Nú verður, að minnsta kosti, málið metið öðru sinni.“
Kristrún hefur gegnt mörgum trúnaðarembættum innan Samfylkingarinnar, m.a. er hún fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Árna Páls Árnasonar, og er nú doktorsnemi í lögum við Columbia háskóla í Bandaríkjunum.
Kristrún var á meðal þeirra sem gagnrýndu Landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde, f.v. forsætisráðherra hvað harðast. Hún sagði m.a. í því samhengi, skv. frétt mbl.is frá þeim tíma, réttarkerfið ævinlega hafa komið fyrst og staðið æðst. Hún sagðist leyfa sér að fullyrða að engin siðmenntuð mannseskja með einhverja lögfræðimenntun gæti horft á þetta mál [Landsdómsmálið] án þess að blygðast sín.