Fagnar endurskoðun dóms MDE: Finnst hann ganga of langt

Kristrún Heimisdóttir, doktorsnemi í lögum og f.v. aðstoðarmaður utanríkisráðherra.

Athygli hefur vakið, að Kristrún Heimisdóttir fagni þeirri niðurstöðu, að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Landsréttarmálinu, skuli hafa verið samþykktur til endurskoðunar í yfirdeild MDE, eins og fram kom í fréttum í gær. Hún hafði þetta um málið að segja á facebook:

„Fagna þessu mjög því mér fannst MDE dómurinn ganga of langt og vera hvorki gott skref í starfi þessa mikilvæga alþjóðadómstóls né ásættanlegur fyrir Ísland sem aðildarríki. Nú verður, að minnsta kosti, málið metið öðru sinni.“

Skjáskot af færslu Kristrúnar á facebook.

Kristrún hefur gegnt mörgum trúnaðarembættum innan Samfylkingarinnar, m.a. er hún fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Árna Páls Árnasonar, og er nú doktorsnemi í lögum við Columbia háskóla í Bandaríkjunum.

Kristrún var á meðal þeirra sem gagnrýndu Landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde, f.v. forsætisráðherra hvað harðast. Hún sagði m.a. í því samhengi, skv. frétt mbl.is frá þeim tíma, rétt­ar­kerfið æv­in­lega hafa komið fyrst og staðið æðst. Hún sagðist leyfa sér að full­yrða að eng­in siðmenntuð manns­eskja með ein­hverja lög­fræðimennt­un gæti horft á þetta mál [Landsdómsmálið] án þess að blygðast sín.