„Auðvitað er alltaf vandræðalegt, þegar teknar eru upp samræður í ölæði og jafnvel allar samræður, þar sem menn eiga ekki von á upptöku og tala í hálfkæringi: Fáir standast slíkt návígi,“ segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands um upptökur af samtölum sex þingmanna Miðflokks og Flokks fólks á vínveitingastað, sem mjög hefur verið vitnað til í fjölmiðlum undanfarinn sólarhring.
„En hver braut lög og skráðar og óskráðar siðareglur með því að taka upp samræður þingmannanna og koma upptökunum síðan í blöð? Hvað gekk honum eða henni til?“ spyr prófessorinn.
Hann segir að þetta atvik minni annars dálítið á það, þegar Margrét Tryggvadóttir þingkona sendi árið 2009 í misgáningi á ýmsa tölvubréf, sem hún ætlaði aðeins einum eða fáum, en þar sagði hún, að flokksbróðir hennar í Hreyfingunni, Þráinn Bertelsson alþingismaður, gengi ekki heill til skógar.
„Ég man ekki eftir, að nein sérstök eftirköst hafi orðið af því önnur en þau, að Þráinn gekk úr Hreyfingunni,“ segir Hannes Hólmsteinn í færslu á fésbókinni.