Halda mætti að heimurinn stæði í björtu báli, sé miðað við fyrirsagnir og fréttir undanfarið, frá fjölmiðlum á borð við Ríkisútvarpið, The New York Times og CNN. The Times greindi t.d. frá því nýverið að Amazon-frumskógurinn gæti fljótlega eyðst og horfið. Þessir miðlar hafa einnig greint frá því að skógar og sléttur í Afríku, Síberíu og Indónesíu séu að fuðra upp. Það er þó fjarri sannleikanum, og um það er fjallað í grein í Forbes.
Mælingar og gervihnattamyndir Bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA sýna fram á annað, og á vef NASA segir jafnframt að rannsóknarniðurstöður sem birtar hafi verið í vísindatímaritinu Science sýni að frá árinu 1998 hafi gróðureldar dregist saman um heil 24% í heiminum. Andstætt því sem víðlesnir fjölmiðlar og frægt fólk heldur fram, hafi hagvöxtur og borgarmyndun dregið úr bruna, frekar en að kynda undir hann.
Batnandi efnahagur dregur úr gróðurbruna
Ástæðan er að sífellt minna af landi er notað undir landbúnað vegna tækniframfara og batnandi efnahagur fólks veitir þeim tækifæri til að snúa til bættari lífshátta. Síðastliðin 35 ár hafi skógar og gróðurlendi t.a.m. verið í sókn í heiminum. Það þýðir að skógar og gróðurlendi hefur stækkað hraðar en land sem hefur verið tekið undir ræktun eða annan iðnað. Aukin hlýindi og hærra koldíoxíðs hlutfall í lofthjúpnum valda því að gróður hefur tekið að vaxa hraðar og á áður auðum eða gróðursnauðum svæðum.
Á sjöunda áratugnum var því haldið fram að regnskógarnir væru „lungu jarðarinnar“, og legðu til stóran hluta þess súrefnis sem verður til á jörðinni. Það hefur fyrir margt löngu síðan verið hrakið með vísindalegum mælingum, en engar vísbendingar eru um að regnskógarnir framleiði meira súrefni en þeir þurfa að nota. Þessar upplýsingar hafa þó ekki stoppað Ríkisútvarpið og stóra erlenda miðla í að birta fyrirsagnir á borð við „Lungu jarðarinnar brenna“, undanfarna daga. Afleiðingin af þessu er að tiltrú almennings á fréttum helstu fjölmiðla fer hratt dvínandi, að því er segir í greininni.