Fannar Ólafsson athafnamaður og einn besti körfuboltamaður okkar Íslendinga er fertugur í dag.
Fannar varð goðsögn í körfunni með KR og hefur einnig vakið mikla athygli í körfuboltaþáttunum vinsælu á Stöð 2, þar sem hann lætur menn heyra það á kjarnyrtri íslensku undir liðnum Fannar skammar.
Fannar er líka umsvifamikill athafnamaður. Hann er meðal annars í eigendahópi KEA hótela, Frumherja og fleiri fyrirtækja.
Systir hans Björt, fv. umhverfisráðherra, lýsir honum þannig í kveðju á fésbók í tilefni fertugsafmælisins:
„Fannar bróðir minn á afmæli í dag. Hann hefur alltaf verið náttúruafl. Þegar hann var lítill ræddi pabbi um að virkja á honum talfærin til þess nýta þessa orku sem af sífeldu tali hans leiddi. Hann hefur þann eiginleika sem ég sé alltaf meir og meir að er mönnum mjög fágætur. Að láta hlutina raunverulega gerast. Hann er aldrei lítill í sér og stekkur af stað þegar einhverjir í umhverfi hans eru kannski ekki alltaf tilbúnir. Hann Fannar bróðir minn liggur ekki á skoðunum sínum, svo sumum þykir nóg um, en á sama tíma má hann ekkert aumt sjá og það er stutt í kjarnann sem er viðkvæmur og fullur af samkennd. Fannar er rausnarlegasti maður sem ég þekki. Honum hefur vegnað vel, og þó hann sé oft uppi í skýjunum að manni finnst með hausinn á milljón. Þá er er grunnurinn traustur. Hann er ekki of góður fyrir nein verk sem þarf að vinna.“