Hér eru upplýsingar sem allir foreldrar og ömmur og afar ættu að taka til athugunar: Stórfjölskyldan, sem býr kynslóðum saman á einum stað, er á undanhaldi í nútímasamfélagi, en rannsóknir sýna að fátt er börnum hollara en vera samvistum við ömmur sínar og afa.
Málið snýst ekki um aðgang að bakstrinum hennar ömmu og þægilegri, ókeypis barnapössun. Náin tengsl fjölskyldna við ömmu og afa skila sér í betri líðan barnanna okkar.
Og það er ekki ástæða til að óttast að amma og afi muni dekra börnin úr hófi fram, þótt þau baði þau í ást og eftirlæti. Slíkt er líklegra til að skila sér í sterkum einstaklingum.
Vefurinn Motherly, hefur tekið saman fimm ástæður fyrir því að börn hafi gott af því að vera mikið með afa og ömmu:
- Rannsókn Háskóla í Oxford hefur leitt í ljós að börn sem eru náin afa sínum og ömmu glíma síður við tilfinninga- eða hegðunarvanda. Þá eiga þau betra með að vinna úr erfiðri lífsreynslu á borð við skilnað foreldra eða einelti í skóla.
- Börn sem hafa skilning á reynslu kynslóðanna og sögu eigin fjölskyldu hafa sterkari sjálfsmynd og betri stjórn á eigin lífi, jafnvel þótt lífið utan veggja heimilisins gangi upp og ofan. Lífsreynslusögur þeirra sem eldri eru, geri það að verkum að börnin átti sig á því að lífið snýst um fleira en þau sjálf og að hægt sé að vinna bug á mótlæti og erfiðum aðstæðum.
- Börn sem njóta samvista við sér eldra fólk þróa síður með sér fordóma.
- Samvistir við ömmu og afa geta dregið úr líkum á þunglyndi barna þegar þau komast á fullorðinsár. Það hefur jafnframt andleg áhrif á ömmu og afa, svo ávinningurinn er gagnkvæmur!
- Það eykur langlífi ömmu og afa að vera samvistum við barnabörnin og hafa líf og fjör á heimilinu, þar sem annars getur verið ansi rólegt og einmanalegt.
Niðurstaðan er því að barnabörn og ömmur og afar hafa öll gott af nánum samgangi. Barnabörnin verða andlega sterkari og heilsa þeirra sem eldri eru styrkist.