Björgvin G. Sigurðsson, fv. viðskiptaráðherra, segist ekki hafa upplifað neinn létti þegar Alþingi ákvað að sækja hann ekki til saka fyrir landsdómi fyrir embættisfærslur sínar í aðdraganda efnahagshrunsins.
„Ég upplifði þó engan létti þegar tillagan um mig var felld með 35 atkvæðum gegn 27 og hjásetu Marðar Árnasonar. Í móðu tilfinninganna fann ég fyrir óljósri gleði fyrir hönd okkar Árna og Ingibjargar, en fyrst og fremst fann ég samviskubit gagnvart Geir sem stóð einn í eldinum. Með einhverjum óskýrðum hætti fannst mér í umróti augnabliksins eins og ég hefði brugðist honum.
Ég var dapur yfir því hvernig komið væri fyrir okkur öllum og Alþingi. Því er heldur ekki að leyna að mér þótti flokkurinn minn koma frekar tættur út úr þessu afdrifaríka máli,“ segir hann í bókinni Stormurinn – reynslusaga ráðherra.
Bókin sú hefur nú verið sett í heild sinni á sérstaka síðu á Netinu, þar sem má lesa hana ókeypis. Hún kom út fyrir átta árum og fjallar um aðdraganda efnahagshrunsins 2008, og eftirmál þess út frá sjónarhorni Björgvins sem viðskiptaráðherra.
„Þar sem bókin er nú að verða fágæt á prenti en oft eftir henni leitað, til mín og útgefanda, ákvað ég að setja hana á opna vefsíðu þar sem bókina er að finna í heild sinni. Mikilvægt er að allar helstu heimildir um þessa einstöku atburði séu aðgengilegir í framtíðinni. Því var ákveðið að fara þá leið að setja bókina upp á opinni vefsíðu, henni einni helgaðri,“ segir Björgvin í tilkynningu til fjölmiðla í dag.
Slóðin á bókina er stormurinn.is og Viljinn mun birta valda kafla úr henni næstu daga.