Fjárfestingabanki Evrópusambandsins verður „loftslagsbanki“

Evrópski fjárfestingabankinn EIB er með metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum. Mynd/EIB

Eftir margra mánaða þrotlausar samningaviðræður, samþykkti stjórn Evrópska fjárfestingabankans (European Investment Bank, EIB) í gær, að verða „loftslagsbanki“. Um þetta fjallar Forbes í dag.

Ursula von der Leyen.

EIB er lánastofnun Evrópusambandsins (ESB) og er bankinn með þessu talinn vera að uppfylla eitt helsta stefnuloforð Ursula von der Leyen, nýkjörins forseta framkvæmdastjórnar ESB. EIB verður þar með fyrsti fjölþætti þróunarbankinn, sem skuldbindur sig til að hætta útlánum til alls jarðefnaeldsneytisiðnaðar. Bankinn hætti að lána kolaiðnaði árið 2013 og hér með mun sú ákvörðun einnig ná til olíu og gass.

Bankinn ætlar að ljúka öllum útlánum til jarðefnaeldsneytisiðnaðar í árslok 2021, og samræma allar ákvarðanir um fjármögnun við Parísarsamkomulagið. Stefna bankans mun losa milljarð evra í fjármögnun til aðgerða í loftslagsmálum og sjálfbæra fjárfestingu á næsta ári, að sögn bankans.

Metnaðarfyllsta fjárfestingastefna loftslagsmála í heimi

„Loftslagsmál eru efst á dagskrá stjórnmálanna í dag,“ sagði Werner Hoyer, bankastjóri EIB. „Við munum hætta fjármögnun til jarðefnaeldsneytis og ýta úr vör metnaðarfyllstu fjárfestingarstefnu loftslagsmála allra opinberra fjármálastofnana í heimi.“

Samtök loftslagsvænna forstjóra, European Leaders Group, fögnuðu fréttunum. „Að EIB hætti fjármögnun jarðefnaeldsneytisverkefna er vendipunktur sem gerir ESB að leiðtoga, eftir forskrift Græna samningsins (e. Green Deal),“ er haft eftir Eliot Whittington, sem fer fyrir hópnum. „Við verðum að horfa á þetta sem ákall til annarra lánveitenda til að feta í fótspor bankans.“

Stefnan ógni orkuöryggi heimsins sem enn stólar á jarðefnaeldsneyti

Olíu- og gasframleiðendur segja ákvörðunina ekki vera í takt við spár um orkuþörf frá Alþjóða orkumálastofnuninni (IEA), og ógni orkuöryggi.

„Olía og gas eru notuð í um helming orkuframleiðslu heimsins í dag, og munu halda áfram að gera það næstu áratugi,“ sagði í yfirlýsingu Alþjóðasamtaka olíu- og gasframleiðenda. 

„Áframhaldandi fjárfesting er nauðsynleg til að sporna við samdrætti í framleiðslu. Þessi staða er studd í áætlun Alþjóða orkumálastofnunarinnar 2019, sem birt var í vikunni. Þar segir að áframhaldandi fjárfesting, bæði í nýjum og þegar starfandi olíusvæðum, sé því „nauðsynlegur hluti af sjálfbærum orkuflutningum.“